Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:30:40 (4274)

2002-02-07 15:30:40# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil segja það að marggefnu tilefni að ég tel að það sé ærin ástæða til að ræða það í þessum sölum með hvaða hætti hæstv. forseti Halldór Blöndal sinnir sínum störfum sem forseti og samskiptum hans við þingmenn. Ég ætla ekki að ræða það frekar nú vegna þess, eins og bent hefur verið á, að hann er ekki viðstaddur. En til er ég í þá umræðu og ég tel að hennar sé þörf.

Ég vil hins vegar segja af þeim ummælum sem hæstv. forseti lét falla hér vegna frammíkalls hv. þm. Ögmundar Jónassonar að ég er þeirrar skoðunar að það hafi fráleitt gefið tilefni til þess að í fyrsta skipti í hálfa öld sé gripið til þingvítis. Ég vil líka segja það, herra forseti, að ég tel að sá háttur sem fylgdi þeim ummælum sem hæstv. forseti lét falla í aðdraganda frammíkalls hv. þm. hafi nú átt nokkra sök á því í hvaða tóni og með hvaða galsafengna hætti frammíkall hv. þm. Ögmundar Jónassonar var. Síðan vil ég líka segja það sem starfandi þingmaður hér að forsetadæmið er nú í nokkrum vanda statt því að það hlýtur auðvitað að eiga að láta gæta jafnræðis í þessum sölum. Og með hvaða hætti ætla menn hér að fara gagnvart frammíköllum, sem frekar hefur nú verið ýtt undir, að ég tel, af hæstv. forseta Halldóri Blöndal, eftir þetta? Við hverju eiga þingmenn að geta búist? Þetta er eitt af því sem hæstv. forseti verður í kjölfar þessa atburðar að skýra með einhverjum hætti fyrir þinginu. Þangað til eru menn hreinlega ekki vissir um hvað þeir geta leyft sér hér án þess að eiga þetta á hættu. Ég get sagt það alveg hreinskilnislega, herra forseti, að miðað það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fékk hér yfir sig í kjölfar síns frammíkalls þá er ég ansi hræddur um það að ég og margir aðrir þingmenn höfum verðskuldað eitthvað slíkt en ekki fengið.