Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:38:24 (4280)

2002-02-07 15:38:24# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Í annað sinn flyt ég till. til þál. um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ólafur Örn Haraldsson, Árni R. Árnason, Gísli S. Einarsson, Karl V. Matthíasson, Kristján Pálsson og Katrín Fjeldsted.

Tillögugreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga.``

Herra forseti. Það má með sanni segja að það veki nokkra furðu þegar til þess er litið að síðan 1944 hefur þjóðfáni Íslendinga verið staðfestur sem slíkur en aldrei fengið innangengt inn í sjálft Alþingishúsið. Hér koma þúsundir manna á hverju ári, innlendir sem erlendir gestir, og hér ber ekki fyrir augu í þingsal eða í þinghúsinu þjóðfána Íslendinga. Ekki eru mörg ár síðan ég flutti þáltill. um endurskoðun um þjóðfána Íslendinga. Var það gert vegna þess m.a. að þjóðfáninn var orðinn ofverndaður og fólk var hætt að nota þjóðfánann með nokkrum hætti. Svo föst og skipulögð voru lög og reglur um fánann að fólk var nánast hrætt við að nota hann.

Ég sendi hv. forsn. fyrir líklega tveimur árum svohljóðandi bréf sem ég vil vitna til, með leyfi forseta:

,,Það hefur vakið athygli mína þá í sjónvarpi birtast fréttamyndir af störfum erlendra þjóðþinga hve bakgrunnur þeirra er í forsetastól sitja er litríkur og áberandi. Að öllu jöfnu er þar áberandi þjóðfáni þess þings er mynd á skjánum birtist frá í bakgrunni eða til hliðar við forsetastól.

Horfandi á hinn faststillta, litlausa myndramma sjónvarps frá Alþingi væru mikil blæbrigði og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma, sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.``

Ég setti undir að ég vænti þess að hv. forsn. tæki vel á þessu máli.

Langur tími leið og engin svör bárust svo að af því tilefni flutti ég þessa þáltill., eins og ég gat um áðan, sem nú er flutt í annað sinn, en fékkst ekki útrædd á síðasta þingi.

Herra forseti. Ég hef rætt við við forsn. um þetta mál, þ.e. þann hæstv. forseta er hér situr og aðra en hæstv. forseta Halldór Blöndal. Ég held ég sé ekki að segja neitt sem ég má ekki segja, en þeir eru mjög hlynntir þessu máli. (Gripið fram í: Það eru mikil meðmæli.) Eins og ég sagði áðan tel ég með ólíkindum og mjög sérstakt að allar götur frá 1944, þegar þjóðfáni vor var ákveðinn, skuli aldrei hafa verið léð máls á því eða að ekki skuli hafa verið tekin ákvörðun um að þjóðfáninn væri innan dyra í Alþingishúsinu.

Enn fremur hefur verið deilt mjög um það hvort skjaldarmerki Íslendinga ætti að vera utan á húsinu og þekkjum við alla þá sögu sem spannst af því þegar talað var um að það merki sem tilheyrði þá Danakonungi ætti að takast niður og setja ætti í staðinn upp skjaldarmerkið. En ekki hefur orðið af því og er það ekki heldur til umræðu hér.

Það sem varð til þess að ég flutti þessa þáltill. er, eins og ég sagði áðan, að ég fékk ekki svör við þessu bréfi mínu. Þess vegna lagði ég fram þáltill.

Í greinargerð sem fylgir þáltill. er m.a. vitnað í ræðu Sigurðar Eggerz fjmrh. sem gegndi störfum forsrh. 1. desember 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er því göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar.``

Ég segi aftur: Hvernig má það vera að innan veggja Alþingis þar sem rætt er um eflingu og vegsemd og gildi þingsins sjálfs skuli þjóðfáninn ekki hafinn til vegs og virðingar?

Í tengslum við heimsóknir þjóðhöfðingja hingað til lands hafa birst fréttamyndir í sjónvarpi frá viðkomandi landi og þingi þar sem að öllu jöfnu er áberandi þjóðfáni landsins við forsæti eða ræðustól.

Með lögum nr. 67/1998, um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga, voru heimildir til að nýta þjóðfánann rýmkaðar. Var það m.a. gert til að aflétta ofverndun íslenska þjóðfánans og stuðla að því að gera hann sýnilegri.

Alla daga þá Alþingi starfar eru beinar útsendingar sjónvarps frá þingsal og verður ekki annað sagt en að mikil blæbrigði yrðu á sjónvarpsmynd og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól.

Flutningsmenn telja það mjög við hæfi að þjóðfáni Íslendinga skipi veglegan sess í þingsal Alþingis.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál og vísa til þess að þingmenn hljóta að fylgja þessu máli eftir og taka á svo þetta megi verða að veruleika. Segja má að yfir höfuð sé dálítið merkilegt að þurfa að flytja þáltill. um þetta sjálfsagða mál. Ég spyr aftur: Hvernig í ósköpunum má það gerast að á þjóðþingi Íslendinga skuli þjóðfáninn ekki vera innan dyra? Margir spyrja þessarar spurningar. Er þetta frá dögum ofverndunar þjóðfánans? Við sjáum nú að þjóðfáninn er kominn í flestar opinberar byggingar, í skóla o.s.frv. Nokkur ríkisfyrirtæki leggja sig fram um að flagga íslenska tjúgufánanum og meira að segja gekk fram af nokkrum blaðamönnum þegar fyrrverandi útvarpsstjóri gerði það til blæbrigða að flagga þjóðfánanum fyrir framan útvarpshúsið þegar útvarpsráð hélt fundi sína. Fjölmiðlar sáu fulla ástæðu til að gera grín að þessu. Það er með ólíkindum.

Herra forseti. Með tilvísun til 23. gr. þingskapa Alþingis vil ég leggja til að þessari þáltil. verði vísað til síðari umræðu án þess að málið fari til þingnefndar. Í 23. gr. þingskapa Alþingis segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi.``

Þetta mál var lagt fyrir allshn. er ég flutti það síðast og þar var leitað margra umsagna. Herra forseti. Ég tel að engir séu betur fallnir til að veita þessu máli umsögn en alþingismenn sjálfir og það gera þeir með atkvæðagreiðslu. Því óska ég eftir, virðulegi forseti, að málið fái þá meðferð að því sé vísað til síðari umræðu án þess að ganga til nefndar.