Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:52:02 (4284)

2002-02-07 15:52:02# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi tillaga er stutt og gagnorð:

,,Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga.``

Þetta er með allra stystu þáltill. sem maður sér og í stíl við tillöguna skal ég vera stuttorður. Ég vil aðeins lýsa stuðningi við hana. Ég hef oft rætt þetta við hv. þm. sem hefur sýnt þessu mikinn áhuga og fylgt þessu eftir af mikilli þrautseigju árum saman og ég hef jafnan verið honum sammála. Hann hefur talað fyrir þessu við þingmenn og hann hefur talað fyrir þessu við forsn. eins og hér kom fram og skrifað forsn. bréf sem hann hefur ekki fengið svar við. Þó að hann hafi kannski ekki fengið formlegt svar vissi hann um afgreiðsluna að það hefur ekki verið einhugur í forsn. um þetta mál. Ég hef verið hv. þm. mjög sammála og finnst þetta hið besta mál.

Við erum auðvitað stolt af þinginu okkar. Hingað kemur mjög mikið af gestum á hverju einasta ári. Það er nefnt í greinargerð með tillögunni að hér komi margir erlendir þjóðhöfðingjar. Því má bæta við að hingað kemur urmull af öðru fólki, bæði erlendum stjórnmálamönnum, ferðamönnum og mjög mikið af Íslendingum. Hingað koma mörg þúsund manns á hverju einasta ári og fá góða leiðsögn um þetta hús. Við erum stolt af húsinu og höfum hér fólk sem er sérhæft í því að leiða fólk um sali og sýna það sem fyrir augun ber.

Ég er sammála hv. þm. um að okkar fallegi þjóðfáni mundi prýða þingið. Alþingismenn hafa í gegnum tíðina verið afskaplega íhaldssamir á þingsalinn. Þeir sem hér hafa stjórnað ferðinni, forsetar þingsins, hafa ekki verið mikið fyrir að vera hér með eitthvert punt eða glans sem er ágætt. Ef við litumst hér um gefur að líta fallega mynd af Jóni Sigurðssyni. Hvað er svo annað sem prýðir salinn fyrir utan málninguna? Það eru þessar tvær atkvæðatöflur hérna hvor á sinni hlið (ÖS: Og forsetinn.) og svo það sem snýr að sjónvarpinu og síðan gluggatjöldin á bak við okkur. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir á að forsetarnir prýði þingsalinn líka sem er út af fyrir sig rétt. En það er ekki nema þegar þingfundur stendur. Yfirleitt koma gestir á öðrum tíma. En ég er sammála hv. þm. um að mikil prýði er að þeim sem hér sitja á forsetastóli (Gripið fram í: Sumum.) --- sumum.

Ég tel að afskaplega vel færi á því, eins og segir í greinargerð þessarar tillögu, að hafa þjóðfánann hér og ég mundi vilja hafa hann að baki forseta. Héðan er öllum þingfundum sjónvarpað. Forsetapúltið blasir við og þessi ljóta gráa gardína bak við forsetann. Ég tel að þar ætti fáninn að vera. Hann mundi prýða þingsalinn og hann mundi gera okkur enn stoltari en við erum af þessum þingsal og þessu þinghúsi. Ég styð því eindregið þessa ágætu tillögu hv. þm.