Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:56:56 (4287)

2002-02-07 15:56:56# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Það var sjálfsagt á sínum tíma hjá hv. flutningsmanni að leggja til að slakað yrði á of ströngum kröfum um meðferð fánans, sem þegar hefur verið gert. Það má auðvitað ekki ganga í öfgar út og e.t.v. er engin þörf á að apa eftir það atferli í kringum þjóðfána sem við sjáum t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Frakklandi og sjálfsagt í fleiri ríkjum þar sem engin nýlunda er að fánanum og hann er svo sem eins og hvurt annað götuskraut sem ekki vekur athygli þegar honum er flaggað.

Hins vegar er þessi tillaga alveg prýðileg og ber þar til það sem hér hefur verið nefnt að farið er í kjölfar forseta Íslands og að óskum hans um aukna virðingu og rækt við þjóðfánann. Alþingismönnum og Alþingi ber hlusta á forsetann þegar hann tekur til máls um slíka hluti enda er hann eins konar handhafi fánans. Ein af fáum stjórnarathöfnum forsetans er raunar að setja um fánann tilteknar reglur. Síðan hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson bent á hin auknu alþjóðlegu tengsl og hver veit nema svo færi að greina þyrfti myndir í sjónvarpi frá íslenska þinginu, sem sendar væru út um víða veröld, frá öðrum þingum svo sem eins og Bandaríkjaþingi eða franska þinginu eða öðrum merkilegum þingum, með því að menn sæju það í svip og sjónhending að hér er um hið merka ríki íslenska lýðveldið að ræða. Vera kann að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni verði líka að þeirri ósk sinni að Evrópusambandsfáninn verði við hliðina á okkur, réttu megin við þennan pall samkvæmt fánalögum og mundi þá verða enn meiri prýði í þinghúsinu.

Ef menn vilja vera fljótir að afgreiða málið er sjálfsagður endir á þessu sá að við sættum okkur núna við að forseti geri ofurlítið fundarhlé og nái í fánann, setji hann hér til hliðar við þingpallinn og ljúki þar með þessu máli farsællega. Mætti þá um það hafa þann orðskvið að þegar kötturinn er fjarri leiki mýsnar sér.