Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:02:13 (4289)

2002-02-07 16:02:13# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls með svo jákvæðu hugarfari sem raun ber vitni. Ég þakka fyrir það.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns og hv. þm. Kjartan Ólafsson kom líka inn á þekkjum við öll danskar vörur af danska fánanum sem varan er jafnvel vafin í. Með þeim breytingum sem gerðar voru á þjóðfánalögunum, sem ég talaði um áðan, bregður svo við að íslenskum framleiðendum er heimilt að nota þjóðfánann sem merki á vöru sína. Ég spurði hæstv. forsrh. á síðasta ári hve margir íslenskir framleiðendur hefðu leitað til forsrn. eftir heimild til að nota fánann sem merkingu á framleiðsluvörur sínar. Í ljós kom að það var enginn.

Það er líka dálítið merkilegt að þegar ég flutti þáltill. um rýmkun laga til notkunar þjóðfánans, einkum vegna framleiðsluvara okkar Íslendinga, lagði hæstv. forsrh. fram tillögu um að jafnframt yrðu skjaldarmerkinu sett lög sem ekki voru til áður. Eitt fyrirtæki hér á landi sem selur vatn hafði notað íslenska skjaldarmerkið á umbúðir sínar og hafði fengið til þess leyfi frá fyrrv. forsrh. Leyfið gildir enn því að ekki er hægt að afturkalla það þó að nú séu komin lög um skjaldarmerki Íslands. Því kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir --- ég hef reyndar ekki gert athugasemdir við það --- að íslenska Landhelgisgæslan er komin með nýtt skjaldarmerki sem mér persónulega finnst afbökun á því íslenska þrátt fyrir að lög um skjaldarmerki Íslendinga séu frágengin og klár. En það er önnur saga.

Við erum stolt þegar við sjáum Íslendinga hampa íslenska fánanum á Ólympíuleikunum eins og kom fram í umræðunni áðan varðandi handknattleik Íslendinga á erlendri grund þar sem þjóðin öll fylgdist með. Ég held að enginn hafi verið ósáttur við að horfa á fjöldann allan veifa íslenska fánanum þegar myndavélinni var beint upp í áhorendastúkuna. Ég held að það hafi ekki verið til lasts, það var mjög ánægjuleg sjón.

Það er rétt eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, og í ræðu minni á sínum tíma, að þetta vakti athygli. Það vekur líka eflaust athygli ykkar ef þið hugsið um það. Ef þið farið inn í verslun og kaupið vöru sem merkt er þjóðfána munið þið kannski eftir þjóðfánanum frekar en umbúðunum eða öðru um vöruna ef hún hefur reynst vel. Þetta var nú aðeins útúrdúr.

Ég endurtek þakkir mínar til þingmanna sem svo jákvætt hafa tekið undir þessa þáltill. Ég trúi ekki öðru en að hv. forsn. taki málið til afgreiðslu og samþykki afgreiðslu málsins með þeim hætti sem ég óska hér eftir, að málið fari ekki til nefndar heldur beint til síðari umræðu.