Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:35:09 (4293)

2002-02-07 16:35:09# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði ,,ef faðirinn er sæmilegur maður``. Því er ég alveg sammála. Þá sé ég heldur ekkert á móti því að móðirin bendi á þann mann, þennan sæmilega mann, sem föður. Ég hugsa að í flestum tilfellum sé það þannig.

Það er annað mál sem mætti gjarnan koma inn á og ekki er leyst með þessu máli. Það er þegar feður skilja við börn sín jafnframt því sem þeir skilja við mæður þeirra. Það eru oft mjög erfið mál, sérstaklega fyrir börnin sem þurfa að þola þá höfnun sem felst í því að faðirinn þekkir þau allt í einu ekki lengur. En á því er ekki tekið hérna og menn hafa sagt að það sé engum til hagsbóta að þvinga fram samskipti föður við barn í slíku tilfelli.

Þau dæmi sem ég nefndi eru að sjálfsögðu þegar þjóðfélagið er ekki slétt og fellt, þegar einstaklingarnir sem um er að ræða hafa einhverja persónugalla, t.d. ofbeldishneigð, þar sem það að vekja upp kynsamband getur valdið mjög mikilli röskun í þeirri fjölskyldu sem tekist hefur að byggja upp seinna. Það getur verið barninu mjög skaðlegt. Öll sú röskun sem af því leiðir getur skaðað barnið mjög mikið. Og ég hélt að menn væru fyrst og fremst að hugsa um barnið í barnalögunum. Það er kannski spurning um að bæta inn í þetta frv. því ákvæði að slíkt skuli leyft, aðild föður að máli, ef það er barninu til hagsbóta.