Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:36:40 (4294)

2002-02-07 16:36:40# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi í ræðu sinni það tilvik þegar barn er getið við nauðgun og ég fellst á með hv. þm. að það er auðvitað atriði sem þarf að skoða og um það gegnir öðru máli. Við erum að leggja hérna til almenna reglu.

Ég notaði í andsvari mínu áðan orðin ,,ef faðirinn er sæmilegur maður``. Það sem ég á við er auðvitað það að háttsemi hans sé slík að ekki þurfi að beita þeim verndunarákvæðum sem er að finna í lögum og reglum um samskipti móður og barns eða föður og barns, þegar sambúð foreldranna er ekki fyrir hendi. Ég held sem sagt að við höfum þegar ákvæði sem komi í veg fyrir að faðir geti með þessum hætti notfært sér kynsamband við barn til að áreita móðurina. Það er það sem vakir fyrir hv. þingmanni.

Ég held líka að margvíslegir atburðir geti valdið því að móðir kýs að leggjast gegn því að faðir fái að hafa samband við barn sem til er orðið með þessum hætti. Ég nefni sem dæmi þrýsting seinni sambúðarmannsins. Dæmi eru um að slíkur þrýstingur hafi orðið til þess að hinn raunverulegi kynfaðir fái ekki að umgangast barnið, fái ekki einu sinni að gera tilkall til faðernis.

Það sem skiptir líka máli, herra forseti, er að dómur Hæstaréttar um mál af þessu tagi liggur fyrir. Auðvitað ætti hæstv. dómsmrh. að vera stödd hér í dag til að skýra fyrir okkur hvernig í ósköpunum stendur á því að hún hefur ekki lagt fram frv. til að breyta lögunum og fullnusta þannig hæstaréttardóminn.