Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:43:00 (4297)

2002-02-07 16:43:00# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Lögin valda skaða eins og þau eru í dag. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau brjóti í bága við stjórnarskrána og telur að breyta eigi lögunum í þá veru sem við leggjum til hér.

Móðir getur farið fram á barnsfaðernismál. Auðvitað á faðir að hafa sama rétt. Foreldrar eiga að hafa sama rétt til þess að koma að slíku máli. Það eru sjálfsögð mannréttindi og sjálfsagt jafnrétti.

Auðvitað gildir annað um ættleiðingar. Það er ekki alltaf hægt að finna kynforeldra barna. Það hefur oftast og yfirleitt verið ágætlega farsælt fyrir börn að vera hjá foreldrum sem hafa ættleitt þau. Þar gildir það sama og um það dæmi sem ég nefndi áðan, þegar móðir getur ekki feðrað barn. Það nær þá ekki lengra. En sé hægt að feðra barn og finna kynföður á barnið auðvitað rétt á að vita það og kynnast honum. Auðvitað eiga að vera leiðir í löggjöfinni fyrir feður til að leita þessa réttar síns, og einnig er það réttur barnsins.