Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:49:16 (4300)

2002-02-07 16:49:16# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur skapast um þetta mál og þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni.

Vegna ummæla hér áðan í ræðu vil ég geta þess að ég sé ekki ástæðu til þess að réttur föður sé skilyrtur frekar en að réttur móður sé skilyrtur í þessum efnum. Þau eiga auðvitað að standa jafnfætis.

Varðandi hagsmunina hvað varðar heilsufar og lækningu á alvarlegum sjúkdómum, sem er stórmál í lífi hvers einstaklings, þá er það ekki aðeins réttur barnsins að vita hverjir eru ættingjar þess þannig að hægt sé að leita lækninga við alvarlegum sjúkdómum, heldur geta það auðvitað líka verið heilsufarshagsmunir föður í ákveðnum tilvikum að vita að hann eigi barn sem e.t.v. gæti gefið honum merg eða líffæri eða komið til hjálpar á annan hátt. Ég vildi bara nefna það í framhaldi af þessari umræðu.

Auðvitað hefði hæstv. dómsmrh. átt að vera löngu komin með frv. inn í þingið og breyta lögum í kjölfar þess hæstaréttardóms sem hefur verið hér til umfjöllunar í umræðu um þetta mál. En við höfum nú tekið ómakið af hæstv. ráðherra. Hér er komið frv. í þingið. Hv. allshn. mun skoða þetta mál og athuga hvort gera þurfi frekari breytingar á því. Ég treysti hv. nefnd til að gera það og vonast til þess að hún komi málinu farsællega frá sér og hingað inn í þingið aftur því þetta er stórt hagsmunamál allra karla í landinu og mikið jafnréttismál og mannréttindamál.