Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:51:31 (4301)

2002-02-07 16:51:31# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér næst á undan mér mælti hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir fyrir frv. um breytingu á barnalögum og fór þar yfir mál sem hún hefur ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar flutt á Alþingi og varðar réttindi barns. Réttindi barna og umhverfi barna eru mál sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa látið sig mjög varða. Þeir hafa flutt mörg slík mál hér á Alþingi og jafnvel fengið samþykkt mál þó að í stjórnarandstöðu séu. Það segir okkur hve mikilvægt er að taka á í þessum málum og hve víða þarf enn að taka á í málefnum barna.

Umhverfi barnanna er þýðingarmesta samfélagsverkefni okkar. Uppeldi, aðbúnaður, félagsleg umgjörð, menntun og ekki síst ástríkt heimili eru þeir þættir sem eru til þess fallnir að efla með barni þroska og heilbrigðan hugsunarhátt svo það verði nýtur þjóðfélagsþegn. Þetta ræðum við oft hér.

Við ræðum ekki oft um ófædda barnið eða þá þætti eða atburði sem ráðið geta miklu um hvernig líf þess verður og um hæfileika barns og þroska í fyllingu tímans. Foreldri hefur að sjálfsögðu sjálfsforræði um lífsstíl sinn og líferni, en ég fullyrði að vandfundin er sú verðandi móðir sem viljandi tekur þá áhættu að skaða ófætt barn sem hún ber undir belti. En það getur gerst óviljandi. Þess vegna er svo mikilvægt að gera það sem unnt er til að afstýra því.

Sú tillaga sem ég mæli fyrir hér er af þeim toga. Hún snýst um það að neysla móður á áfengi getur haft varanleg áhrif á ófædda barnið. Ég flutti þessa tillögu fyrir mörgum árum. Þá voru viðbrögðin þau að fræðsla um skaðsemi áfengisneyslu á meðgöngu ætti að leysa þetta mál, fræðslan ætti að vera þar sem konur kæmu í skoðun, fræðsla ætti að vera í skólunum, fræðsla og aftur fræðsla var lykilorðið. Ég hef fylgst með. Ætli sé ekki svona áratugur síðan ég flutti þetta mál og satt best að segja finnst, held ég, einn lítill bæklingur sem fannst líka þá. Ég hef spurt ótal ungar konur hvaða upplýsingar þeim hafi verið veittar um þetta mál og ég fæ alltaf sama svarið. Nokkrar ungar fréttakonur höfðu samband við mig og ræddu við mig í tilefni af framlagningu þessa máls núna og ég spurði þær líka, þær voru mæður: Hvað var sagt við þig? Vissir þú að þetta væri skaðlegt? Og það var í hæsta máta að svarið væri: Ég gaf mér að það væri ekki gott fyrir fóstrið.

Nú er þetta mál flutt á ný. Þverpólitísk samstaða er um málið að þessu sinni og ég mæli fyrir þessari tillögu. Með mér flytja málið Katrín Fjeldsted, Steingrímur J. Sigfússon, Magnús Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir, Ásta Möller, Þuríður Backman og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Frumvarpsgreinin, sem er bara ein, orðast svo, með leyfi forseta:

,,Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal, að höfðu samráði við landlæknisembættið og Umferðarráð, sjá til þess að allar umbúðir undir áfengi, sem selt er í útsölum hennar, séu merktar á áberandi stað með viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman. Texti viðvörunarinnar skal vera á íslensku og vera vel læsilegur.``

Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem lögleiddu að merkimiðar með varnaðarorðum um skaðsemi tóbaks væru settir á allar tóbaksumbúðir. Þetta framtak vakti athygli víða um lönd og enda þótt erfitt sé að mæla bein áhrif slíkra viðvarana eru flutningsmenn sannfærðir um að slík varnaðarorð hafa bæði bein og óbein áhrif.

Með frumvarpi þessu er lagt til að allar umbúðir undir áfengi séu merktar á áberandi stað þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman.

Á fylgiskjali I er að finna yfirlit yfir ölvunarakstur og umferðarslys á síðustu árum, þ.e. aldursskiptingu ölvaðra ökumanna í umferðarslysum 1995--1999, kynjaskiptingu ökumanna í slysum með meiðslum og banaslysum þar sem orsök slyssins var ölvunarakstur árin 1993--1999, hlutfall ölvunaraksturs í banaslysum og slysum með meiðslum sömu ár og fjölda ölvaðra ökumanna sem áttu aðild að slysunum. Fram kemur að ölvaður ökumaður veldur að jafnaði umferðarslysi í hverri viku á þessum árum.

Herra forseti. Ástæða þess að við flutningsmenn leggjum til að bæði verði varað við áfengisneyslu kvenna með barni og jafnframt bent á að akstur og áfengi fari ekki saman, er að við notum fyrirmynd frá Bandaríkjunum, en þar var fyrir rúmum áratug lögleitt að viðvaranir um skaðsemi áfengis skyldu vera á öllum áfengisumbúðum og er þar ekkert undanskilið, hvorki létt vín né áfengur bjór. Viðvörunin á áfengisumbúðum í Bandaríkjunum er svohljóðandi:

,,Opinber viðvörun:

1. Að ráði landlæknis ættu barnshafandi konur ekki að neyta áfengis sökum hættu á fósturskaða.

2. Áfengisneysla dregur úr ökuhæfni og hæfileika til að stjórna vélum og kann að valda heilsutjóni.``

Lögð er höfuðáhersla á fósturskaðann í greinargerð minni, enda er minni þekking á þeim skaða en hvað varðar áfengi og aksturinn og vísa ég til töflu sem fylgir með um aksturinn en vík nánar að fósturskaðanum.

Mikið hefur verið fjallað um fósturskaða af völdum áfengis frá því að heilkennið var greint árið 1973. Með rannsóknum hafa fengist óyggjandi sannanir fyrir skaðsemi áfengis fyrir fóstur. Heilkenni fósturskaða af völdum áfengis ásamt áfengistengdri röskun á taugaþroska kann að vera fyrir hendi hjá allt að 9,1 barni af hverjum 1.000, samkvæmt rannsókn frá Seattle í Bandaríkjunum. Reyndar liggja fyrir fleiri rannsóknir af þessum toga. Erlendar tíðnitölur sýna að eitt af hverjum 750--1.000 fæddum börnum sé alvarlega skemmt af þessum sökum. Tölur um tíðni heilkennis fósturskaða af völdum áfengis eru mjög breytilegar eftir því hvaða skilmerki eru notuð og hvers konar þýði er skoðað. Í ritum um efnið er algengast að tíðni þess sé talin vera eitt til þrjú af hverjum 1.000 lifandi fæddum börnum meðal vestrænna þjóða. Meiri hluti þeirra barna sem verða fyrir áhrifum áfengis í móðurkviði eru ekki með útlitseinkenni og vaxtarskerðingu sem þurfa að vera fyrir hendi til að uppfylla greiningaskilmerki fyrir heilkenni fósturskaða af völdum áfengis. Börnin geta samt verið með alvarlegar vitsmuna- og hegðunartruflanir sem koma fram hjá áfengissköðuðum börnum og stafa af breytingum sem verða á starfsemi heilans og/eða byggingu hans. Oft eru þessi börn hvorki greind né fá við eigandi meðferð. Lýsingar á börnum sem orðið hafa fyrir áfengisáhrifum í móðurkviði fela í sér m.a. greindarskerðingu, ofvirkni, athyglisbrest, námserfiðleika, minnistruflanir, málhömlun, skertar fínhreyfingar og skerta rúmskynjun. Fósturskaða af völdum áfengis hefur verið lýst sem helstu þekktu orsök greindarskerðingar en rannsóknir hafa sýnt að aðeins hluti áfengisskaðaðra einstaklinga er strangt til tekið þroskaheftur og margir þeirra fara því á mis við ýmsa opinbera þjónustu á sviði menntunar og starfa sem ætluð er fötluðum.

[17:00]

Herra forseti. Við áfengisneyslu móður verður alkóhólmagnið í fóstrinu innan fárra mínútna það sama og í blóði móður. Lifur fóstursins hefur aðeins 10% afkastagetu miðað við lifur móður og eftir að alkóhól er horfið úr blóði fóstursins eru enn þá leifar í legvatninu. Þess vegna er fóstrið lengur en móðirin undir áhrifum áfengis. Áfengistengdur skaði á börnum er líklega algengari en fólk gerir sér almennt grein fyrir vegna þess að tíðnitölur eru ekki þekktar hérlendis.

Virðulegi forseti. Á árinu 1999 birtist mjög athyglisverð yfirlitsgrein í Læknablaðinu um fósturskaða af völdum áfengis og það er Sólveig Jónsdóttir, sálfræðingur hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans, sem ritaði þessa grein. Hún er mjög fagleg og þar er að finna gott yfirlit yfir það sem þarna er um að ræða. Þessi grein er birt sem fylgiskjal með frv. og ég hvet þingmenn til að kynna sér hana.

Ég ætla aðeins að litlu leyti að grípa niður í þessa grein á nokkrum stöðum, fyrst og fremst til að beina athyglinni að því sem einkennir þau börn sem hafa orðið fyrir skaða án þess að heilkennið sem slíkt greinist. Eins og fram hefur komið er mikil útlitsbreyting sem fylgir heilkenninu.

Lýsingar á börnum sem orðið hafa fyrir áfengisáhrifum í móðurkviði fela í sér m.a. greindarskerðingu, ofvirkni, athyglisbrest, námserfiðleika, minnistruflanir, málhömlun, skertar fínhreyfingar og skerta rúmskynjun. Rannsóknir á dýrum hafa einnig leitt í ljós ýmsar starfrænar afleiðingar áfengisneyslu á meðgöngu eins og ofvirkni, skerta hæfni til að bæla viðbrögð og skerta náms- og minnishæfni.

Taugasálfræðilegar rannsóknir á börnum hafa leitt í ljós að tegund og umfang þroskaröskunar tengist beint magni og tímasetningu áfengisneyslu á meðgöngu. Rannsókn sem gerð var í Seattle hefur beinst að langtímaafleiðingum hóflegrar áfengisneyslu á meðgöngu. Sú rannsókn leiddi í ljós skammtatengd áhrif alkóhóls á ýmsa taugasálfræðilega þætti frá fæðingu til 14 ára aldurs. Mestu áhrifin voru á athygli, hraða við úrvinnslu áreita og námsgetu. Nákvæmlega þetta er að verða mjög alvarlegur þáttur varðandi þau börn sem eiga í erfiðleikum við skólagöngu.

Vandamál tengd athygli og hvatastjórnun eru mjög algeng hjá áfengissködduðum börnum. Rannsóknir, sem fylgt hafa eftir börnum með heilkenni fósturskaða af völdum áfengis, sýna að ofvirkni og athyglibrestur virðist einna helst standa í vegi fyrir því að þessi börn eigi áfallalausan skólaferil. Vegna þess hversu algengt vandamál þetta er meðal áfengisskaðaðra barna hefur því jafnvel verið haldið fram að áfengi gæti verið orsakavaldur athyglibrests með ofvirkni. Þessi röskun á taugaþroska er ekki aðeins vandamál í æsku heldur einnig ævilöng fötlun.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í stuttu yfirliti mínu yfir það sem ítarlega er fjallað um í fylgiriti með frv. er þetta ekki spurning um hvort skaðinn er til staðar heldur hversu mikill hann er. Með hvaða hætti á að beina upplýsingunum til viðkomandi? Við höfum lagt til að það sé gert með þessari aðvörun sem getur skipt miklu máli. Þetta er ekki bara spurning um vitneskjuna heldur áminninguna sem getur skipt sköpum á viðkvæmri stund.

Rannsóknir sýna að áfengisneysla barnshafandi kvenna getur skaðað fóstrið varanlega. Því er ósvarað hvers vegna áfengi skaðar sum fóstur en ekki önnur. Hitt er staðreynd, þ.e. að meira að segja á þeim áratug frá því ég flutti þetta frv. fyrst hafa neysluvenjur Íslendinga breyst. Fleiri neyta áfengis og oftar, e.t.v. þó í minna mæli. Það er eðlilegt að eiga bjór og vín í ísskápnum. Kynslóðir sem komnar eru af barneignaraldri í dag bjuggu við öðruvísi áfengissiði. Nú er þetta að verða líkara því sem tíðkast í þeim löndum sem rannóknir hafa farið fram í og við erum e.t.v. að sigla hraðbyri inn í munstur aukinnar tíðni þessara vandamála. Gera má ráð fyrir að alvarlegar afleiðingar geti fylgt breyttu munstri og aukinni neyslu.

Það er staðreynd að fóstrið er í beinu blóðsambandi við móður, að það er sama áfengismagn í litla fóstrinu og móðurinni. Það er margfalt minna magn af áfengi sem barn á brjósti fær í gegnum móðurmjólk og samt vitum við hvaða augum það er litið ef móðir með barn á brjósti neytir áfengis. Þó fær barnið aðeins brot af áfenginu gegnum brjóstið miðað við það þegar móðir neytir áfengis á meðgöngu.

Herra forseti. Almennt hefur þessi tillaga fengið jákvæðar viðtökur. Ég hef orðið vör við það frá því að hún var fyrst lögð fram. Þeir sem leggjast gegn henni eru fyrst og fremst fulltrúar birgjanna. Þeir hafa áhyggjur af því að merkingarnar verði kostnaðarsamar. Þeir hafa áhyggjur af því að þetta verði viðskiptaþvingandi. Um það hef ég átt viðræður við fulltrúa birgjanna. Ég er því ósammála að kostnaður eigi að stöðva okkur í að fara þessa leið með áminninguna. Einhver af þeim sem komu fram í viðræðuþætti talaði um að þetta gæti kostað 5--10 kr. á einingu. Þegar við lítum til þess hve opinber gjöld og skattar eru hár hluti af áfengisverði má líka spyrja þeirrar spurningar hvorum megin veggjar þessar 5 eða 10 kr. eigi að falla? Ég geri því ekki mikið úr þeirri gagnrýni.

Önnur gagnrýni sem heyrst hefur og höfð hefur verið uppi er að það sé fráleitt að vera með merkingu sem segi að áfengi og akstur fari ekki saman af því allir viti það. Aftur bendi ég á að þetta mál snýst ekki um vitneskjuna heldur áminninguna. Bandaríkjamenn, sem eru þúsund sinnum fleiri en við, létu sig ekki muna um að láta þá aðvörun fylgja með og þess vegna höfum við, flutningsmenn að þessu frv., valið að fara sömu leið.

Mér er þó ofarlega í huga ófædda barnið og sá skaði sem það verður óviljandi fyrir vegna þekkingarskorts. Skaði sem, þó vægur sé, getur mótað öll uppvaxtarár og skólagöngu. Mér finnst það skipta mestu máli. En ef það næst fram að hæstv. Alþingi fallist á að fara sömu leið með áfengið og við höfum farsællega farið með tóbakið og verið fyrirmynd annarra þjóða í þá fyndist mér ágætt að hafa merkingar af tvennum toga.

Herra forseti. Ég læt framsögu minni lokið um þetta mál um leið og ég legg höfuðáherslu á að vernda ófædd börn fyrir þeim skaða sem þau geta orðið fyrir. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni umræðu vísað til allshn.