Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:09:58 (4302)

2002-02-07 17:09:58# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessu frv. og vil í upphafi máls þakka frumkvæði hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að því að leggja það fyrir þingið.

Ljóst virðist að ungt fólk er ekki upplýst um þær hættur sem t.d. fóstri getur stafað af áfengisneyslu. Ég held að það að merkja áfengi með viðvörunum, annars vegar því að hættulegt sé fyrir ungar mæður gagnvart fóstrinu að neyta áfengis og hins vegar viðvörun til ökumanna, hljóti hvort tveggja að vera til bóta.

Því hefur verið borið við, eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að kostnaður sé þessu samfara. Ég vil í því sambandi minna á að þegar hér fóru fram umræður fyrir mörgum árum um að merkja tóbak sem vöru sem gæti valdið sjúkdómum og skaða, sem gæti jafnvel verið mönnum banvæn með langri neyslu, gerðu innflutningsaðilar og umboðsaðilar tóbaks hér á landi miklar athugasemdir við að taka upp slíkar merkingar og töldu það algjörlega ónauðsynlegt og jafnvel óframkvæmanlegt. Þeir töldu það dýrt og annað eftir því. Ekkert af þessum fullyrðingum finnst mér hafa átt við rök að styðjast. Það er alla vega svo í dag að allir sem neyta tóbaks vita af því, það er beinlínis á umbúðum tóbaksins sem þeir neyta, að það geti verið heilsuspillandi. Auðvitað tekur hver og einn ákvörðun um það hvort hann neytir slíkrar vöru en merkingin hefur örugglega áhrif til viðvörunar og vonandi til upplýsingar.

Ég tel að almennt sé betra að reyna að upplýsa fólk um hætturnar og hvað megi betur fara í lífi þess en að setja mjög strangar reglur með boðum og bönnum, þótt það geti verið nauðsynlegt í sumum tilvikum. Vissulega er ekki heimilt að aka bifreið þegar menn hafa drukkið mikið magn af áfengi en því miður er það samt gert, eins og greinilega kemur fram í töflum sem hér eru birtar.

Ég vil draga það fram við þessa umræðu að samkvæmt töflum sem birtar eru í fskj. I á bls. 3, eru að meðaltali 26,6% ölvaðra ökumanna sem valdir eru að slysum á aldrinum 17--20 ára, yfir allt þetta tímabil frá árinu 1995--1999.

Maður gæti litið á það sem svo að þarna skorti á kynningu og þekkingu og þess vegna yrði það sem lagt er til í þessu frv. verulega til bóta að því er varðar yngri ökumennina. Hins vegar er það athyglisvert, ef skoðaður er aldur ökumanna 25--40 ára, að hlutur þeirra er talsvert hærri í slíkum slysum, eða 32,3% að meðaltali yfir þetta fimm ára tímabil. Það segir okkur að þörf sé á því að efla upplýsingar um að áfengi og akstur fari ekki saman og að áfengisneysla geti verið hættuleg bæði þeim sem ekur og öðrum vegfarendum þegar menn aka undir áhrifum áfengis.

Það er einnig athyglisvert að í þessari samantekt kemur í ljós að karlar eru rúmlega helmingi fleiri en konur, sé skoðuð kynjaskipting ökumanna í slysum með meiðslum og banaslysum þar sem orsökin er ölvunarakstur. Ég get ekki annað en dregið þær ályktanir af þessum upplýsingum en að full þörf sé á að veita upplýsingar um skaðsemi áfengis, annars vegar fyrir verðandi mæður og hins vegar fyrir ökumenn, með viðvörunarmiða á umbúðum sem gefi til kynna að neysla vímugjafans sé varasöm þegar svo stendur á að kona er barnshafandi eða þegar menn hyggjast nota ökutæki.

Það er líka rétt að ítreka sem kemur fram í greinargerðinni að slíkar merkingar sem hér um ræðir hafa verið teknar upp í Bandaríkjunum. Ég tel að við getum eins farið þá leið hér á landi varðandi áfengið líkt og þegar við tókum upp þá reglu að merkja tóbakið.

Ég vona að þetta mál fái jákvæða umfjöllun hér í þinginu og að við stígum skrefið sem hér er lagt til. Það getur að öllu samanlögðu eingöngu orðið þjóðfélagi okkar til góðs.