Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:31:48 (4306)

2002-02-07 17:31:48# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram að það var ekki ætlunin að í máli mínu fælist eitthvað um það að hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir væri að tala fyrir hönd birgjanna. Það hvarflaði bara ekki að mér og ekki heldur að ég væri að gera henni það upp að hún væri talsmaður þeirra. En það var kannski eðlilegt að ég segði að ég hefði heyrt þennan málflutning áður, einmitt frá fulltrúum birgjanna, vegna þess að ég lenti í viðræðum við nokkra þeirra þegar málið var lagt fram. Þeim var mjög í mun að andmæla þessu frv., og það var með nákvæmlega sömu rökum og ég var að vitna til í seinni ræðu minni að þingmaðurinn hefði farið yfir, með kostnaðinn og óþarfann og að allir ættu að vita þetta.

Herra forseti. Bara til að undirstrika það vil ég árétta að ég er í engu að setja niður við þingmanninn. Ég tek undir það, þetta var afbragðsgóð ræða hjá þingmanninum miðað við þann málflutning og þá sannfæringu sem hún hefur uppi. Mín sannfæring er önnur. Ég er mjög ósammála henni og hef fært fyrir því rök. Mér finnst ábending hv. þm. Péturs H. Blöndals mjög góð vegna þess að ég hefði á engan hátt viljað að það lægi eftir í máli mínu að ég væri að áfellast þingmanninn eða gera henni það upp að hún væri hér sem talsmaður birgjanna. Ég vildi bara hafa þetta alveg á hreinu.