Endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:44:09 (4308)

2002-02-07 17:44:09# 127. lþ. 73.19 fundur 430. mál: #A endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum till. til þál. um endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts.

Ég tel orðið mjög brýnt í ljósi þeirrar reynslu sem komin er af þessu kerfi að endurskoða reglurnar og tek undir með hv. þm. Ólafi Björnssyni um það atriði.

En það er fleira. Hann sagði að það ætti að greiða útskatt jafnóðum inn á reikning en þá ættu menn væntanlega rétt á því að fá innskattinn greiddan til sín frá ríkinu. Í sjálfu sér er það ekki órökrétt og þetta mætti jafnvel gera vikulega eða eitthvað slíkt en ég tel mjög brýnt að forða mönnum frá þeirri freistingu að nota útskattinn í rekstur.

Það er annað atriði sem hv. þm. kom lítillega inn á sem er miklu alvarlegra og það er það að greiðsla virðisaukaskatts miðar við útgáfu reiknings en ekki við greiðslu reiknings. Segjum að einhver aðili gefi út 5 millj. kr. reikning, þar af er um 1 millj. í virðisaukaskatt, og hefur ekki innskatt á móti. Þessi reikningur er stílaður á fyrirtæki sem síðar verður gjaldþrota þannig að þessi reikningur er aldrei greiddur. Fyrirtækið eða einstaklingurinn þarf tveimur mánuðum seinna að standa skil á 1 millj. kr. skattinum. Það er sýslumaður en ekki fyrirtækið sem ákveður hvenær hann hættir að innheimta reikninginn og afskrifar hann. Hann þarf að beita ýtrustu aðferðum til að ná í þessa peninga þó að allir viti fyrir fram að það er vonlaust. Í reynd þarf hann að bíða eftir skiptalokum í viðkomandi skiptabúi sem hann stílaði reikninginn á áður en hann getur afskrifað kröfuna og þarf fyrir löngu að vera búinn að greiða 1 millj. í ríkissjóð. Ef hann ekki gerir það vegna þess að hann á ekki peningana --- segjum að þetta sé eini reikningurinn sem hann hefur gefið út --- getur hann átt á hættu að fá álögur, þ.e. þá er hann kominn í 2 milljónir, og samkvæmt orðanna hljóðan sem við hv. þm. höfum sett lendir hann í fangelsi.