Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:47:34 (4309)

2002-02-07 17:47:34# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Flm. (Mörður Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga.

Í 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar er boðið að maður sem stendur utan trúfélaga greiði til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Í þessari grein er einnig kveðið á um að þessu megi breyta með lögum. Þetta er einmitt frv. til slíkra laga og gerir ráð fyrir afnámi gjaldtökunnar. Að auki væri með samþykkt frv. breytt þeim ákvæðum laga um sóknargjöld og fleira, nr. 91/1987, með síðari breytingum, sem tengjast fyrrnefndum ákvæðum í stjórnarskrárgreininni.

Þetta frv. var fyrst flutt á 125. löggjafarþingi haustið 1999 og ég leyfi mér til þæginda að vísa hér til framsöguræðu sem þá var flutt og umræðunnar í kjölfar hennar. Ég rakti þá rök um trúfelsi og félagafrelsi sem tryggt er í stjórnarskrá og þau almennu mannréttindasjónarmið sem liggja að baki því að þessi gjaldheimta verði stöðvuð. Ég rakti einnig hvernig þessu er háttað í grannlöndum okkar, en í engu þeirra tíðkast skattheimta af þessu tagi svo spurnir fari af. Um þessi mál er m.a. fjallað í efnismikili skýrslu á vegum Eystrasaltsráðsins frá 1999, sem heitir á ensku ,,The Right to Freedom of Religion and Religious Associations`` eftir Ole Espersen, mannréttindafulltrúa hjá þessu ráði og fyrrverandi dómsmálaráðherra Dana, en þar er gerð grein fyrir stöðu mála á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum, Þýskalandi, Póllandi og Rússlandi. Skýrslan er í vörslu alþjóðasviðs og má einnig finna hana á vef Eystrasaltsráðsins á netinu.

Virðulegi forseti. Sumir þeirra sem hafa rætt þetta frv. efnislega telja að því sé stefnt gegn þjóðkirkjunni. Það er ekki rétt. Eins og fram kemur í greinargerð er ekki ætlunin með þessu frv. að hreyfa við þeirri skipan sem lengi hefur tíðkast, að ríkið innheimti með sköttum sóknargjöld þjóðkirkjumanna og fólks í skráðum trúfélögum. Þá skipan má í sjálfu sér ræða og spyrja hvaða rök standi til þess að ríkið innheimti gjöld fyrir þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, en ekki fyrir t.d. líknarfélög, íþróttafélög, stjórnmálaflokka eða þann félagsskap annan sem flestir eru sammála um að sé sjálfsagður hluti af samfélagi okkar.

Þessi skipan, hvort sem hún fer fram með innheimtu sérstaks nefskatts sem áður var eða samhliða tekjuskattsinnheimtu með sérstökum jöfnuði í þeirra þágu sem ekki borga tekjuskatt, á sér auðvitað fyrst og fremst sögulegar ástæður. Það má líta svo á að hún sé í samræmi við hina sérstöku stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkinu, sem ekki er ætlunin að hrófla við með þessu frv.

Raunar má vel líta svo á að þótt ríki og kirkja yrðu skilin fullkomlega að væri samt sem áður eðlilegt að ríkisvaldið héldi áfram að veita núverandi þjóðkirkju og öðrum skráðum söfnuðum þessa mikilvægu aðstoð, trúarbrögðunum til sérstaks heiðurs og virðingar.

En um leið og menn virða trúarbrögðin verður að virða rétt þeirra sem annaðhvort hafa önnur trúarbrögð en tíðkuð eru í þeim trúfélögum sem hafa verið skráð í kirkjumrn. eða kjósa að standa með öllu utan trúarsafnaða. Rétturinn til að aðhyllast þau trúarbrögð sem hver vill án sérstakra afskipta ríkisvaldsins tekur líka til þess að stunda ekki hin skráðu trúarbrögð.

Sú sérstaða trúfélaga meðal frjálsra félagasamtaka sem hér leiðir beint af þjóðkirkjufyrirkomulaginu getur ekki gefið ríkinu rétt til að leggja á umrætt gjald. Það er athyglisvert að stjórnarskrárgjafinn sem svo er kallaður virðist sjálfur hafa haft slíkar efasemdir um þessa skipan að hann heimilar breytingu á stjórnarskránni með almennum lögum hvað þetta varðar í 64. gr., en slík ákvæði eru afar sjaldgæf í stjórnarskrá okkar, enda er í sömu grein stjórnarskrárinnar kveðið á um þann grundvallarrétt að öllum sé heimilt að standa utan trúfélaga og að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.

Enn segir í sömu grein að enginn megi neins í missa af borgaralegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, sem er einboðið að leggja út á þann veg að enginn megi heldur neins í missa vegna þess að hann hafi engin trúarbrögð eða trúarbrögð óskráð í ráðuneytum.

Virðulegi forseti. Hér er ekki um verulega fjármuni að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisbókhaldi var sóknargjald fyrir árið 2001 --- sóknargjald ársins 2002 er enn ótútreiknað og munar nokkrum dögum --- 566,05 kr. á mann á mánuði eða 6.792,60 kr. á árinu. Í fjárlögum fyrir 2002 er gert ráð fyrir að gjaldið frá mönnum utan skráðra trúfélaga nemi á þessu ári í heild 72 milljónum kr. og rennur eins og lög gera ráð fyrir um ríkissjóðinn til Háskólasjóðs. Hér er ekki um mikið fé að ræða fyrir hvern einstakling enda eru þungar fjárálögur ekki undirrót þessa frv. heldur mannréttindi. Þetta er aftur talsvert fé fyrir þann sem nú nýtur gjaldheimtunnar, þ.e. Háskólasjóð.

Ég spurðist fyrir um Háskólasjóð á 121. löggjafarþingi fyrir fimm árum, 1996--1997, og á þskj. 711 frá því þingi má sjá úthlutanir úr sjóðnum átta ár næstliðin. Tilgangur hans er að efla menningarstarfsemi innan háskólans, útgáfustarfsemi, fyrirlestra, tónleikahald og annað verðugt að mati háskólaráðs, auk þess að leysa óvænta fjárþörf sem upp kann að koma í skólasamfélaginu. Menn geta skoðað það sjálfir hvernig sjóðnum gengur þetta ætlunarverk. Ég hef ekki við það stórfelldar athugasemdir miðað við að hér er um að ræða sjóð sem þessi skólastofnun geymir fyrir sjálfa sig þannig að fé úr sjóðnum er auðvitað ekki veitt fólki í öðrum háskólum eða sambærilegum menntastofnunum og ekki sjálfstæðum fræðimönnum, fyrirtækjum eða almennum félagasamtökum á sviði vísinda og fræða. Það er ljóst að háskólinn nýtir þetta fé til ýmissra þarfra verkefna og góðra málefna og þyrfti að þessu frv. samþykktu að sjálfsögðu að tryggja skólanum einhvern annan tekjustofn til að koma a.m.k. til móts við missi þessara gjalda úr Háskólasjóði sem nú hefur engar aðrar tekjur að frátöldum vöxtum og verðbótum.

Verkefni Háskólasjóðs geta hins vegar ómögulega talist slík þjóðarnauðsyn að fjár til þeirra sé aflað með einstæðri skattheimtu á hóp manna sem ekki hefur nein sérstök tengsl við stofnunina Háskóla Íslands í Reykjavík eða þau innanskólaverkefni sem njóta stuðnings úr sjóðnum.

Virðulegi forseti. Kemur þá að þolendum í málinu, þeim sem látnir eru greiða þetta sóknargjaldsígildi án þess að teljast til nokkurrar skráðrar sóknar. Hagstofan flokkar þessa menn í tvennt og heldur annars vegar skrá um fólk í óskráðum trúfélögum, eða ótilgreindum, hins vegar um menn utan trúfélaga.

Hinn 1. desember sl. voru menn utan trúfélaga 6.571 eða 2,3% allra landsmanna. Að börnum undir 16 ára aldri frádregnum voru þeir 5.509 eða 2,6% landsmanna 16 ára og eldri. Samsvarandi tölur fyrir menn í óskráðum og ótilgreindum er 7.344 eða 2,6%, þar af 16 ára og eldri 5.943 eða 2,8%. Samtals voru þetta 13.915 Íslendingar eða 4,9% landsmanna, þar af 16 ára og eldri 11.452 eða 5,3% Íslendinga á fullorðinsaldri og þætti ágætt í stjórnmálaflokk sem ætti fulltrúa hér á þinginu.

Veruleg fjölgun hefur orðið í þessum hópum tveimur síðasta áratuginn eða svo, sennilega þó af ólíkum ástæðum. Á árinu 1989, fyrir tólf árum, töldust menn utan safnaða 3.364 og var hlutfallstalan þá 1,3%, en nú nær 6.000, 2,3%, sem er næstum helmings fjölgun. Fleiri og fleiri kjósa að standa utan trúfélaga, sjálfsagt af margvíslegum ástæðum. Guðfræðingar og félagsfræðingar tala um afhelgun samfélagsins, eða ,,sekúlariseringu``, og það fyrirbæri veldur hér að sjálfsögðu nokkru en hefur þó átt sér stað alla síðastliðna öld og getur ekki skýrt vel þróunina á síðasta áratug.

Að mínu viti er hér einnig á ferð aukin vitund um mannréttindi og réttarstöðu einstaklinganna í samfélaginu, sem kemur fram í því að menn láta ekki tregðulögmálið ráða því í sama mæli og áður hvernig fer um skráningu þeirra og félagsaðild af ýmsu tagi. Þá kann hér að valda nokkru umrót innan þjóðkirkjunnar á síðasta áratug og e.t.v. á borgvæðing samfélagsins sinn þátt með annars konar félagslegu samneyti og viðmiðunum en einkum tíðkast í dreifbýli.

Fjölgunin í hópi manna utan trúfélaga samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar hefur verið veruleg, en þó tiltölulega jöfn. Hópur manna í óskráðum söfnuðum og ótilgreindum hefur hins vegar stækkað nánast með sprengihraða á rúmum áratug. Árið 1989 töldust hér 955 menn af þessu tagi, en nú, tólf árum síðar, 7.344 eins og áður sagði. Hópurinn hefur vaxið úr tæplega 1.000 í rúmlega 7.000 á tólf árum. Á þessu kunna að vera tæknilegar skýringar að hluta. En sennilegt er þó að annars vegar innflutningur fólks af erlendum uppruna, nýbúa, og hins vegar flutningar íslenskra frumbyggja milli landa eigi hér mestan þátt, að hér sé fyrst og fremst á ferð alþjóðavæðingin og þær margmenningarlegu breytingar sem nú eru að verða á íslensku samfélagi. Í heild eru Íslendingar utan skráðra trúfélaga nú um 14.000, en voru fyrir tólf árum rúmlega 4.300.

Virðulegi forseti. Haustið 1999 var rakin forsaga þessa máls úr þessum ræðustól. Þokkalegt trúfrelsi landnámsaldar og í upphafi þjóðveldisaldar vék fyrir trúarnauðung eins og lögfræðin kallar það með kristnitökunni árið 999. Þá hófst einveldi einnar kirkjudeildar í trúarlífi Íslendinga, fyrst rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem laut páfanum í Róm og síðan lútersk-evangelísku kirkjunnar sem laut kónginum í Kaupmannahöfn. Ég lýsti á þessum tíma trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar frá 1874 sem reist var á grundvallarlögum Dana 1849 og raunar umfram allt frelsisarfi borgarabyltinganna miklu í Bandaríkjunum og Frakklandi í lok 18. aldar.

Ég lýsti líka þeirri skipan frá 1874 að nýfengið frelsi í trúarefnum náði aðeins til þess að menn réðu með hvaða félagsskipan guði var þjónað, en þeir höfðu að formi til ekki rétt til að standa utan trúfélaga, ekki rétt til að trúa ekki á guð. Þar var því einnig lýst hvernig frjálslyndir menn á þingunum 1913 og 1914, þar á meðal Bjarni Jónsson frá Vogi, Skúli Thoroddsen og Benedikt Sveinsson, rýmkuðu trúfrelsi á Íslandi með því að samþykkja að menn hefðu heimild til að standa utan trúfélaga, hafa ekki trú eða aðra en þá sem lögskráð væri. Í tillögu þessara þriggja þingmanna að stjórnarskipunarlögum var líka gert ráð fyrir því eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut að sá greiddi ekkert félagsgjald sem ekki væri í trúfélagi. Þá komu fram þær mótbárur að Íslendingar mundu hlaupast undan merkjum kirkjunnar ef þeir sæju sér peningalegan hag í því. Því væri rétt að fara varlega að þessu sinni, af praktískum ástæðum, eins og það er orðað á einum stað í umræðunum og að lokum var samþykkt með 15 atkvæðum gegn 10 í neðri deild að taka upp núverandi skipan. Menn kepptust síðan við að ná samstöðu um frv. í efri deild og í meðförum þingsins árið eftir, enda þurftu þingmenn að sýna einhug til að konungur samþykkti þetta frjálsræðisfrumvarp um bætta stöðu landsins í Danaveldi, sem var undanfari fullveldisins 1918, um afnám konungkjörinna þingmanna, um kosningarrétt vinnumanna og ekki síst um kosningarrétt kvenna. Kristján X. sem reyndist síðasti konungur Íslendinga, ritaði að lokum nafn sitt undir frv., eins og frægt er orðið, 19. júní 1915.

[18:00]

Sömu mótbárurnar voru hafðar uppi þegar þetta mál kom í annað skipti til umræðu á Alþingi. Þá kom fram tillaga samefnis því frv. sem nú er til umræðu frá þeim Haraldi Guðmundssyni, þingmanni Ísfirðinga, sem síðar varð ráðherra í stjórn hinna vinnandi stétta og formaður Alþýðuflokksins, Magnúsi Torfasyni, sýslumanni og þingmanni Árnesinga úr Framsóknarflokki, og Bjarna Ásgeirssyni, þingmanni Mýramanna úr Framsóknarflokki, en svo vill til að Bjarni Ásgeirsson er afi hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem er meðflutningsmaður minn að þessu frv. Mér er mikill heiður að því að flytja það með henni þannig að hér tengjast kynslóðir frjálslyndra þingmanna og baráttumanna fyrir mannréttindum í þessu máli.

Í grg. með frv. 1930 segir afar skýrlega þetta hér, með leyfi forseta:

,,Með þessu ákvæði`` --- þ.e. stjórnarskrárákvæðinu um gjaldið til háskólans --- ,,er lagður aukanefskattur, eins konar sektargjald, á þá menn og konur, sem hvorki eru í þjóðkirkjunni né öðru viðurkenndu trúfélagi. Fer þetta alveg í bága við anda og fyrirmæli greinarinnar ...``

Héðinn Valdimarsson var framsögumaður meiri hlutans sem studdi tillöguna en frv. féll að lokum í neðri deildinni. Helsti andstæðingur í umræðum var Magnús Jónsson guðfræðidósent og voru sem fyrr helstu mótrökin þau að menn segðu sig úr þjóðkirkjunni þúsundum saman ef þeir fengju að ráða sjálfir þessu fé sínu.

Réttlætis- og mannréttindarökin fyrir því að fella niður þetta sektargjald, eins og Haraldur og félagar orðuðu það, hafa því verið flutt alla síðustu öld, 1913, 1930, 1999. Á móti hafa komið þær praktísku ástæður, eins og það var orðað í upphafi aldarinnar, að það kynni að ,,veikja þjóðkirkjuna að menn nytu fulls trúfrelsis og félagafrelsis með því að losna við sérstakt sektargjald fyrir að vera ekki í trúfélagi eða aðhyllast önnur trúarbrögð en hin ráðuneytisskráðu``.

Einu sinni voru þeir tímar að menn töldu slíkar praktískar ástæður sjálfsagða afsökun fyrir því að þrengja að einstaklingsrétti. Það var á tímum forsjárhyggjusamfélagsins sem hér hefur reynst lífseigt. Það var t.d. ekki fyrr en undir blálok 19. aldar að vistarbandið var afnumið með afli atkvæða í þessum sal, raunar eftir að það var upptrosnað í samfélaginu sjálfu. Þar réðu líka praktískar ástæður. Það þótti sjálfsagt að leggja þessa áþján á almenning í landinu til að verja merkilega stofnun sem var gamla bændasamfélagið með forsjá bóndans, eins og guðs í himnaríki, yfir börnum og vinnufólki sem vegna ungs aldurs eða fátæktar gat ekki stofnað bú og mátti þar af leiðandi ekki ganga í hjónaband. Þessum lögum var stefnt gegn lausung og hyskni sem taldar voru óhjákvæmilegar afleiðingar búsetu í þurrabúðum, búsetu á mölinni við sjávarútveg og verslun.

Á svipaðan hátt taldi meiri hluti neðri deildar sér skylt árin 1913 og 1930 að verja merkilega samfélagsstofnun, kirkjuna, og menn töldu þá ekki eftir sér að ganga á mannréttindi.

Nú eiga þessir tímar að vera liðnir, virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum áratugum endurbætt stórlega lög og reglur um mannréttindi í landinu, m.a. með merkum stjórnarskipunarlögum 1994. Skilningur hérlendis á gildi þessara réttinda hefur aukist og kröfur frá alþjóðasamfélaginu til okkar hafa aukist á þessu sviði. Með samþykkt þessa frv. væri úr vegi rutt enn einni hindrun á leið til fullra mannréttinda hér á Íslandi. Það mætti líka orða það þannig að þá hefði loksins flust upp á hólminn með bakkaskipi aldanna byltingin mikla í Frakklandi 1789.

Eins og áður sagði var sams konar frv. flutt hér haustið 1999 og vísað til allshn. sem óskaði um það ýmissa umsagna. Ég vek athygli þingheims á þessum umsögnum sem allar voru afar jákvæðar nema umsögn deildarfundar guðfræðideildar. Þær fylgja grg. með frv. og ég bendi sérstaklega á umsögn Siðfræðistofnunar háskólans þar sem rök fyrir frv. eru svo vel sett fram að flutningsmenn geta ekki um bætt. Lokaniðurstaða hennar er, með leyfi forseta:

,,Með því að innheimta umrætt gjald af þeim sem standa utan trúfélaga og láta það renna til háskólans er ríkisvaldið í raun og veru að leggja sérskatt á þennan tiltekna hóp --- á þeirri forsendu einni að hann stendur utan trúfélaga. Réttlátara og eðlilegra er að afleggja þennan skatt.``

Glöggir menn kunna að koma auga á það að í fylgiskjali með grg. eru felldar út nokkrar setningar í lok umsagnarinnar frá guðfræðideild. Ástæðan er sú að okkur, og mér sem 1. flm., þótti ekki við hæfi að standa í neins konar textafræðilegum deilum við deildarfund guðfræðideildar í þingskjali en hins vegar er sjálfsögð háttvísi að geta þessa hér. Umsögninni lauk með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Í nýlegri skýrslu er tekin var saman á vegum Eystrasaltsráðsins og fjallar um trúfrelsi og stöðu trúfélaga í aðildarríkjum þess er bent á gjald það sem hér um ræðir án þess að það sé gagnrýnt.``

Hér er átt við þá skýrslu Espersens sem ég nefndi fyrr í þessari tölu en ég les hana hins vegar öðrum augum en umsegjandinn. Í skýrslunni er einmitt bent á þetta gjald sem aðfinnsluvert atriði í skipan trúmála á Íslandi í sérstakri upptalningu. Það er svo rétt hjá guðfræðideild að höfundur setur það ekki fram meðal helstu ábendinga sinna enda er megintilgangur skýrslunnar að aðstoða uppbyggingarmenn í Eystrasaltsríkjunum við að koma á almennilegu réttarsamfélagi að þessu leyti. Má vissulega segja að þótt Espersen krefjist þess ekki beinlínis að Íslendingar breyti þessari skipun hafi hann bent á þetta sérstaklega Eistum, Lettum og Litháum til viðvörunar.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég geta þess að þegar þetta frv. var flutt fyrst vakti það talsverða athygli. Því var fagnað meðal áhugamanna um mannréttindi og að sjálfsögðu meðal einstaklinga utan skráðra trúfélaga og í samtökum sem láta sig þetta varða. Forustumenn þjóðkirkju og annarra skráðra trúfélaga voru hins vegar þegjandalegir og hafa e.t.v. haft til þess gildar ástæður. En í persónulegum samtölum við ýmsa þjóðkirkjumenn, lærða og leika, kvað þó við þann tón að til lengdar væri ekki skynsamlegt fyrir þjóðkirkjuna að standa á móti þessari breytingu á innheimtuskipaninni þar sem það bætti ekki málstað hennar að berjast gegn jafnsjálfsögðum mannréttindaatriðum.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar Morgunblaðið birti athyglisverða grein eftir Karl Sigurbjörnsson biskup um trúfrelsi, þjóð og kirkju, grein sem fremur málstað þjóðkirkjunnar með rökfestu og þunga í þeim umræðum sem uppi hafa verið undanfarin ár um tengsl ríkis við kirkjuna. Þar fjallar biskup einmitt um innheimtuskipanina sem hann leggur áherslu á að halda í svipuðu horfi og nú er, og það er athyglisvert að biskup gerir enga athugasemd við efnisatriði þessa frv. í vörn sinni fyrir þjóðkirkjuskipanina á Íslandi.

Hann segir um sóknargjöldin og sektargjaldið, með leyfi forseta:

,,Þeir sem utan trúfélaga standa gjalda tilsvarandi til Háskóla Íslands. Þar með hefur löggjafinn viljað koma í veg fyrir að fólk skrái sig utan trúfélaga í ábataskyni. Þetta hefur verið gagnrýnt,`` skrifar biskup og bætir við: ,,Ég skal ekki dæma um það.``

Biskup vill ekki leggja dóm á þetta. Ég held að það sé vegna þess að upplýstir þjóðkirkjumenn skilja að því aðeins verður þjóðkirkjufyrirkomulagið varið að það gangi ekki á stjórnarskrárbundið frelsi borgaranna, að almannavaldið styðji við kirkju og trúarstarf í landinu án þess að ganga á almenn mannréttindi.

Virðulegi forseti. Ég hef forðast upphrópanir og stóryrði sem algeng eru í umræðum um réttindamál af þessum toga og skiljanleg en reynt þess í stað að sýna fram á að nú sé kominn tími til að stíga næsta skref eftir það sem fyrirrennarar okkar stigu á þingunum 1913 og 1914, skref sem menn reyndu að stíga 1930, skref sem færir okkur þann veg fram á við að Íslendingar yrðu nokkurn veginn jafnfætis öðrum norrænum þjóðum í þessu efni. Ég vona að allshn. ljúki umfjöllun sinni um málið verði því vísað til hennar. Það væri leitt að Alþingi trassaði þær lagfæringar sem hér um ræðir, að hérlendir menn þyrftu að sækja rétt sinn til mannréttindastofnana erlendis, og Alþingi þyrfti síðan að laumast í humáttina með skottið á milli lappanna.

Við skulum ganga hreint til verks eftir allan þennan tíma frá 1913, eða 1874, og leiðrétta þetta réttindabrot sem hefur þvælst inn í stjórnarskrána nánast fyrir tilviljun.

Stór orð? Ég ætla að lokum að leyfa mér stór orð, þau sem eru múruð inn í hornstein þess húss þar sem vér stöndum, úr Jóhannesarguðspjalli, 8. kafla, 32. versi, og eiga ágætlega við í þessu fyrirferðarlitla en mikilvæga máli, nefnilega að ,,sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa``.

Virðulegi forseti. Ég tel skynsamlegt að umrætt frv. gangi að lokinni þessari umræðu til allshn.