Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:10:27 (4310)

2002-02-07 18:10:27# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Sóknargjald er ekki lengur innheimt sem nefskattur. Það var aflagt 1988. Sóknargjaldið var fellt inn í tekjuskattinn þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp og er því sóknargjaldið nú sérstakt framlag ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga, ákveðin upphæð á mánuði vegna hvers sóknarbarns, 16 ára og eldra, en samsvarandi upphæð til Háskólasjóðs vegna þeirra sem eru utan trúfélaga. Því til áréttingar má benda á að meðan hið eldra form var í gildi innheimti ríkissjóður ákveðið innheimtugjald vegna milligöngu sinnar við að koma sóknargjaldinu frá sóknarbörnum til kirkjunnar en það er ekki gert í dag.

Skattgreiðendur greiða skatta sína, mismunandi háar upphæðir eftir tekjum og hvernig neyslu er háttað, og einstaklingar leggja því mismunandi mikið inn til samneyslunnar. Sumir greiða t.d. enga tekjuskatta og leggja því ekki inn, t.d. fyrir sóknargjaldinu.

Með hliðsjón af þessu langar mig til að fá útskýringu á því hvernig hv. þm. Mörður Árnason hefur hugsað sér að útfæra það sem kemur fram í 4. tölulið 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður skal endurgreiða einstaklingi sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi, samkvæmt lögum um skráð trúfélög, fjárhæð sem nemur gjaldinu.``

Hvaða upphæð ætlaði þingmaðurinn að miða við og hvaða viðmið ætlar hann að nota? Mundi hann t.d. endurgreiða þær 7 þús. kr. sem er sú upphæð sem ríkissjóður leggur til með hverju sóknarbarni til viðkomandi safnaðar eða ætlar hann að miða við 14 þús. kr. sem er heildarupphæð sem ríkið leggur til með hverju sóknarbarni til þjóðkirkjunnar þegar allt er talið, þ.e. Jöfnunarsjóður sókna, laun presta o.s.frv.? Og hvað ætti síðan að greiða til baka til þess sem greiðir engan tekjuskatt? Hvað hefur hann lagt inn fyrir sóknargjaldi sem gefur honum rétt til að fá endurgreitt? Ég vildi gjarnan fá svar við þessum spurningum.