Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:13:45 (4312)

2002-02-07 18:13:45# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að Jöfnunarsjóður sókna kemur ekki þessu máli við enda nefndi ég hann sem ákveðið dæmi.

Mig langar að vita af hverju hv. þm. tekur sóknargjöldin sérstaklega út úr samneyslunni. Ef hann hefur þessa afstöðu til sóknargjaldsins, eins og hann lýsti í ræðu sinni, getur hann þá ekki sagt með sömu rökum að að einstaklingurinn sem þarf ekki á heilbrigðisþjónustu að halda geti gert kröfu um endurgreiðslu meðalupphæðar sem fer til heilbrigðisþjónustu? Getur t.d. unglingur sem er ekki í framhaldsskóla gert kröfu á ríkið um að fá greidda þá upphæð sem nemur ársframlagi ríkisins vegna hvers nemanda í framhaldsskóla? Í enn einfaldara formi, afnotagjöld útvarpsins eru nokkurs konar nefskattur sem leggst á þau heimili sem eiga útvarp. Yrði hann aflagður eins og sóknargjaldið, og útvarpið yrði óbreytt en fjármagnað með skatttekjum ríkissjóðs eins og sóknargjaldið í dag, ætti þá einstaklingur sem ekki hlustar á útvarpið að fá endurgreidda upphæð sem samsvarar afnotagjöldum? Mig langar að fá svar við þessu.