Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:14:59 (4313)

2002-02-07 18:14:59# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Flm. (Mörður Árnason) (andsvar):

Ég held að hv. þm. misskilji það í lagaskoðun sinni að þegar samþykkt voru lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um sóknargjöld í framhaldi af því var ekki verið að breyta 64. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hljóðar svo og er ágætt að rifja það upp fyrir hv. þm. vegna þess að hún hefur unnið eið að þessari stjórnarskrá og ætti þess vegna kannski að kunna hana. Ég les 3. mgr. 64. gr., með leyfi forseta:

,,Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.``

Ef hv. þm. telur að þessu hafi verið breytt með lögunum um staðgreiðslu skatta hefur hún meira hugarflug en mig grunaði. Menn hafa tæknilega ákveðið að innheimta þessi gjöld með tekjuskattinum og þar með hafa menn tekið upp lofsverða jöfnunarstefnu þannig að fyrir fátækt fólk sem ekki greiðir tekjuskatt er greitt sóknargjald í þann söfnuð sem það vill. Það þýðir hins vegar ekki það að tekjuskattsgreiðendur borgi ekki almennt sóknargjald. Það er hinn mikli misskilningur hv. þm. sem ég þakka að öðru leyti fyrir vinsamlegar ábendingar um tækniefni í þessu máli.