Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:18:30 (4328)

2002-02-11 15:18:30# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Enn hef ég ekki fengið svar við þeirri fyrirspurn minni hvort þetta teljist eðlileg vinnubrögð og vil ítreka spurningu mína til hæstv. forseta Alþingis um hvaða leið eigi að nota --- ég er ekki mjög þingreyndur maður --- til að koma þingskjölum hér inn. Er sem sagt nútíminn kominn það vel hér inn --- það væri út af fyrir sig ágætt en ég held að þá þurfi að breyta þingsköpum --- að við getum hér á Alþingi rætt um netútgáfu byggðaáætlunar (Gripið fram í.) frá ráðuneytinu sem lögð var fram á 126. löggjafarþingi, eins og segir á titilsíðu, forsíðunni? Ég spyr hvort svo sé.

Af því að hér var tekist dálítið á um þingsköp í síðustu viku og ég tók eftir því að ef menn fara út fyrir sviðið og ræða mál sem eru ekki á dagskrá þá megi víta þingmenn, þá spyr ég nú í öðru lagi: Ef ég vogaði mér að ræða þessa netútgáfu byggðaáætlunar í umræðu sem verður hér síðar í dag, t.d. um að ég tel að ekki sé tekið á málefnum Vestfjarða í henni, gæti ég þá átt á hættu að vera skammaður hér af þeim forseta sem þá stjórnar fundi fyrir að ræða mál sem ekki er á dagskrá þó það sé komið á netútgáfu iðnrn.?

Og bara rétt í lokin, herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði áðan að þessi byggðaáætlun væri ekki á dagskrá í dag, eins og tilkynnt var. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst alveg með ólíkindum hvernig ráðherrar ætla hér að umgangast Alþingi og okkur þingmenn varðandi þessi mál. Svo ítreka ég spurningu mína sem ég lagði hér fram áðan: Eru þetta eðlileg vinnubrögð og leyfist okkur að ræða þessa netútgáfu í dag eða ekki?