Sala Landssímans

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:26:12 (4333)

2002-02-11 15:26:12# 127. lþ. 74.1 fundur 324#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin en þau bættu kannski ekki miklu við það sem hann hafði þegar látið frá sér fara. Maður gefur sér þegar hæstv. forsrh. hefur uppi ummæli af því tagi að ríkisstjórnin hafi setið á rökstólum um þessi mál, að eitthvað sé á bak við það mat hæstv. forsrh. að nú séu líkur mjög minnkandi á því að Síminn seljist í þessum áfanga, eins og það er orðað.

Það getur ekki verið æskilegt að endalaus óvissa ríki um framtíð þessa fyrirtækis. Ég leyfði mér því að lesa milli línanna eða vonaðist til þess að lesa mætti milli línanna, þar sem forsrh. talar um að snúa sér að því að styrkja fyrirtækið og láta það ganga í gegnum nauðsynlega endurskoðun, að ríkisstjórnin væri að endurmeta málið og þá með það í huga að eyða óvissu um framtíð þessa fyrirtækis e.t.v. til næstu tveggja ára eða svo. Það er algjörlega augljóst að það er ekki gott fyrir starfsemi fyrirtækis eða stjórnun þess að menn séu í hengjandi óvissu dag frá degi um framtíð sína.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn eindregið til þess að endurmeta þetta mál frá grunni og móta stefnu til einhvers tíma í senn um framtíð og eignarhald þessa fyrirtækis þannig að það hangi ekki endalaust í lausu lofti.