Samkeppnisstofnun

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:33:41 (4339)

2002-02-11 15:33:41# 127. lþ. 74.1 fundur 325#B Samkeppnisstofnun# (óundirbúin fsp.), GunnS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það liggur ljóst fyrir af svörum hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin styður Samkeppnisstofnun. Eigi að síður liggur ljóst fyrir að það er ágreiningur í Sjálfstfl. um Samkeppnisstofnun. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur markað sér sérstöðu og það hafa ýmsir þingmenn Sjálfstfl. líka gert, t.d. hv. þm. Vilhjálmur Egilsson.

Af svari hæstv. forsrh. skil ég að búast megi við því að hæstv. ríkisstjórn muni gefa Samkeppnisstofnun heimild til að grípa inn í þróun mála ef markaðsráðandi staða fyrirtækja er orðin slík að þeim þurfi að skipta upp. Ég skildi svar hæstv. ráðherra með þeim hætti.