Undirbúningur heimsóknar Yassers Arafats

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:47:50 (4351)

2002-02-11 15:47:50# 127. lþ. 74.1 fundur 328#B undirbúningur heimsóknar Yassers Arafats# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir tveimur vikum eða svo leyfði ég mér að spyrja hæstv. utanrrh. út í ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Síðan hafa borist betri fréttir en oft áður af þeim málum, t.d. þess efnis að ríkisstjórn Bandaríkjanna hyggist ekki slíta tengslin við heimastjórn Palestínumanna og að Evrópusambandið sé sameinað í afstöðu sinni til að stuðnings við Palestínumenn og sjálfstæði þeirra.

Fyrir helgi bárust fréttir af því að það hefði lengi verið í athugun að Yasser Arafat, forseti Palestínu, kæmi í opinbera heimsókn til Íslands. Það var haft eftir hæstv. utanrrh. Af því tilefni langar mig til að inna ráðherrann eftir því hvort undirbúningur að slíkri heimsókn sé hafinn og hvort búið sé að dagsetja slíka heimsókn í ráðuneytinu, ef af henni getur orðið.