Sala á útflutningskindakjöti innan lands

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:55:19 (4359)

2002-02-11 15:55:19# 127. lþ. 74.1 fundur 329#B sala á útflutningskindakjöti innan lands# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Bændasamtökin hafa í þessu efni ákveðna eftirlitsskyldu og halda utan um þessi mál. Vissulega er það svo að þetta mál er rætt í mínu ráðuneyti. Við fylgjumst með því og tökum þátt í að reyna að fylgja því eftir að menn fari að lögum. Það er grannt fylgst með því, hv. þm., og reynt að knýja fram úrslit sem fyrst og sem besta niðurstöðu.

Hitt er mér kannski ofarlega í huga, það harmsefni með hið stóra og mikla fyrirtæki Goða, hvernig það fór. Það er nokkuð sem menn verða að horfa á og bændurnir verða að reyna að vinna sér sóknarstöðu til að eignast öfluga afurðastöð og öryggi hvað sín fjármál varðar. Það er stórt verkefni sem ég hef í huga um leið og við reynum að knýja á um að þetta mál komist til lykta og helst með farsælum hætti. Þannig má segja að málið sé tvíþætt: Lokauppgjör í þessu máli og niðurstaða. Síðan er hitt auðvitað stærst, þ.e. framtíðin og betra skipulag hvað þessa atvinnugrein varðar.