2002-02-11 16:55:56# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, 1. þm. Austurl., fyrir góð orð í minn garð. Ég nefndi að þær væru orðnar margar skýrslurnar, og bréfin mörg sem búið væri að semja í sambandi við byggðamál. Og ég var svo sem ekki að segja það á neikvæðan hátt. Það sem ég var að tala um er að það er eins og uppástungurnar í þessum skýrslum gangi ekki eftir. Reyndar kom fram í ræðu hv. þm. að hún harmaði það, sem við gerum náttúrlega öll, að fólkið streymir af landsbyggðinni og suður. Við getum alveg velt fyrir okkur hvers vegna það er. Það eru alls konar álit uppi um það. Hin ágæta stofnun, Byggðastofnun, lét gera eina skýrslu um það efni. Hún fjallaði um hvaða áhrif það hefur þegar kvóti er fluttur af landsvæðum. Og það er skýrsla sem ég vonast til að hæstv. ríkisstjórn hafi til hliðsjónar þegar henni dettur í hug að koma fram með áætlun í byggðamálum, frá árinu 2002--2005, því nú er í raun og veru engin byggðaáætlun í gildi.

Það sem ég vildi sagt hafa, herra forseti, var að það vantar einmitt að farið sé eftir þessum skýrslum. Svo vil ég minna á að það voru tímar þegar fólk flutti út á land og mikil uppbygging var á landsbyggðinni, eins og t.d. á áttunda áratugnum, í kringum 1974 og 1975. Þá var hvert húsið á fætur öðru byggt úti á landi en núna tæmast þessi hús.