2002-02-11 17:03:44# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vandinn við byggðamál á Íslandi er ekki sá að menn hafi ekki haft byggðaáætlanir í höndunum með ágæt og göfug markmið. Vandinn er ekki sá að þeir sem að þessu hafa verið að vinna séu ekki að gera það af góðum hug og reyna sitt besta. Vandinn er bara ósköp einfaldlega sá að þetta hefur ekki dugað. Ekki hefur náðst sá árangur sem ætlunin er að ná, þ.e. stöðva byggðaröskun og koma byggðaþróun, búsetuþróun í landinu í sæmilegt jafnvægi. Það hlýtur að vera markmiðið.

Það má velta því fyrir sér hvað það hafi upp á sig að skakast á eða deila um hverju þar sé um að kenna og hverjir hafi staðið sig verr en aðrir. Það er aukaatriði í sjálfu sér í málinu borið saman við hitt, að reyna að greina þennan vanda og átta sig á því af hverju þeir tilburðir sem á að heita að uppi séu í landinu af hálfu stjórnvalda dugi ekki til þess að jafna eitthvað búsetuskilyrði og koma þeim nær því að vera í jafnvægi, þróuninni að því leyti. Af hverju dugar þetta ekki? Af hverju gengur svona illa? Það er væntanlega vegna þess að eitthvað af þessu á við: Vandinn er miklu meiri en menn átta sig á og það er erfiðara að breyta þessu. Menn gera ekki nóg. Aðgerðirnar eru bara ósköp einfaldlega ónógar. Þær eru of máttlausar. Þær duga ekki til að vega upp á móti undirliggjandi þáttum, orsökum. Eða þá í þriðja lagi að menn eru að gera þetta vitlaust, menn eru ekki að beita réttum tækjum. Fjórði möguleikinn er náttúrlega í stöðunni, herra forseti. Hann er sá að þetta sé ekki hægt, að enginn mannlegur máttur, a.m.k. ekkert í valdi Íslendinga, geti breytt þessu, að við stöndum frammi fyrir einhverjum þvílíkum öflum, þvílíkum náttúrukröftum eða mannlegum og náttúrulegum kröftum að ekkert sé hægt að gera til þess að breyta þessu. Þá væri nú illa komið og þessu viljum við ekki trúa fyrr en í lengstu lög.

Í reynd held ég að hægt sé að afgreiða þann möguleika út úr myndinni með því að vísa til reynslunnar, bæði hér hjá okkur og hjá öðrum. Það hafa komið tímabil þar sem tekist hefur að gjörbreyta þessu andrúmslofti. Það hafa komið löng tímabil, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi hér aðeins, á áttunda áratugnum t.d. þegar langt tímabil var þar sem byggðaþróun á Íslandi var í mjög góðu jafnvægi. Reyndar má segja að hún hafi frekar verið í ójafnvægi í þá áttina að talsvert meiri flutningur fólks var út á land (Gripið fram í: Var ekki vinstri stjórn þá?) en á suðvesturhornið. Árið 1973 var það fyrsta þegar fjölgaði á landsbyggðinni vegna aðflutnings. Þá fluttu fleiri út á land en þaðan. Síðan varð að vísu aftur neikvæð þróun 1974. En svo öll árin 1975, 1976, 1977 og 1978 eru nettóflutningar út á land. Segja má að það sé þó nokkuð, það sé marktæk og umtalsverð þróun, t.d. á árinu 1977 þegar á þriðja hundrað manns flytja á landsbyggðina umfram þá sem þaðan flytja. Og hvað gerist þá? Á því ári fjölgar á landsbyggðinni um alla náttúrulega viðkomu svæðisins plús rúmlega tvö hundruð sem þangað flytja í viðbót. Þannig að fjölgunin náði því að vera umtalsverð.

Síðan er þetta í sjálfu sér í þokkalegu jafnvægi fram undir lok áratugarins. Árin 1979 og 1980 eru nokkurn veginn á núlli. Svo sígur nokkuð á ógæfuhliðina en þó tekur þetta stórt stökk upp á við 1984. Það var nú einhver að spyrja hver var í ríkisstjórnum. Menn geta bara lesið sér til um það sjálfir. En það er nokkuð ljóst að ljótustu tímabilin í þessu eru árin frá 1983/1984 og fram yfir 1990 og svo aftur frá 1993/1994 og fram á daginn í dag. Þeir sem kunna stjórnmálasöguna sæmilega vita hverjir hafa borið ábyrgð á byggðamálum á þessum löngu tímabilum og hverjir hafa gert það aftur á hinum tímabilunum, þarna upp úr 1990, og eins mestallan áttunda áratuginn.

Herra forseti. Markmiðin eru góð og göfug. Það er veruleikinn, það er reyndin sem veldur okkur vonbrigðum. Tökum tvær síðustu byggðaáætlanir, síðastgildandi og næstsíðastgildandi. Sú eldri átti víst að taka til áranna 1997--1999, ef ég veit rétt. Hvað stóð í henni alveg sérstaklega? Hvert var stóra markmiðið sem menn hömpuðu á þeim tíma? Það man ég vel í umræðu um hana. Jú, það var að fjölga ætti opinberum störfum á landsbyggðinni sérstaklega, í reynd held ég að gengið hafi verið svo langt, herra forseti, að segja að fjölgunin sem slík ætti fyrst og fremst að koma fram þar. Hver var niðurstaðan? Hún var sú nokkurn veginn að öll fjölgunin varð á suðvesturhorninu. Með örfáum undantekningum þar sem opinber störf héldust u.þ.b. svipuð og þau höfðu verið, þá fækkað opinberum störfum á landsbyggðinni og fjölgunin kom öll fram í Reykjavík. Með öðrum orðum: Í gildi var byggðaáætlun, stjórnarstefna, samþykkt og uppáskrifuð í bak og fyrir með stuðningi Alþingis um að fara í sérstakar aðgerðir til þess að dreifa uppbyggingu opinberrar þjónustu öðruvísi en verið hafði, og framkvæmdin, veruleikinn, var algjör andstaða. Hið gagnstæða gerðist algjörlega. Í byggðaáætlunin sem rann sitt skeið á enda núna um áramótin síðustu --- var það ekki? --- sú sem tók til áranna frá 1999--2001, sagði, með leyfi forseta, að markmiðið væri það að fólksfjölgun á landsbyggðinni yrði ekki undir landsmeðaltali og að hún næmi 10% til ársins 2010.

Um þetta segir í þeirri skýrslu sem ráðherra lagði hér sjálf fram á síðasta þingi að ljóst sé að þetta markmið sé fjarlægara nú en það var í upphafi áætlunartímabilsins. Auðvitað, vegna þess að allan tímann var fólki að stórfækka á landsbyggðinni. Á fyrsta ári áætlunarinnar fjölgaði landsmönnum um 3.453 eða um 1,25%. Íbúum utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði á sama tíma um 103. Síðan er rætt þarna um að upplýsingar um búferlaflutninga fyrstu níu mánuði ársins 2000 bendi til þess að aðeins hafi dregið úr aðflutningi til höfuðborgarinnar. Það er rétt. Sú reyndist raunin. En hann er samt umtalsverður. Það er lítil huggun harmi gegn, finnst mér, sem ég hef heyrt hæstv. ráðherra nota mikið í umræðum undanfarna daga í fjölmiðlum, að það hafi heldur dregið úr þessum straumi. Hann er samt af stærðargráðunni 700--1.000 manns á ári. Það er auðvitað allt of mikið.

Herra forseti. Ég held að menn verði að átta sig á því og horfast í augu við það að þetta gengur ekki neitt. Menn eru ekki að ná neinum árangri í þessu. Og þó svo að með því sé ekki sagt að margt af því sem reynt er að gera sé ekki til bóta --- það hvarflar ekki að mér að halda því fram --- þá held ég menn eigi að horfast í augu við það og ræða það hreinskilnislega að við erum ekki að ná þeim árangri sem ætlunin er. Það má velta því fyrir sér hvort þessi tök á málum séu ekki kannski versta tegundin af hálfvelgju eða ónógum aðgerðum, sem þýðir að verið er að reyna ýmislegt án þess að það skili tilætluðum árangri.

Ég held að rétt væri að gera miklu öflugra átak og öflugri og markvissari tilraun til þess að láta á það reyna hvort hægt er að ná þarna árangri, hvort hægt er að skapa aftur tímabil, andrúmsloft þar sem þessir hlutir snúast við. Menn væru þá búnir að reyna af öllum kröftum og það sem þeir teldu helst geta komið að gagni og þá væri ekki við það að sakast.

Herra forseti. Við vitum að í verulegum mæli stangast á orð og gjörðir. Í verulegum mæli er annars vegar verið að reyna að grípa til aðgerða til að styrkja byggðaþróun, atvinnuuppbyggingu o.s.frv. á landsbyggðinni, en á hina hliðina eru margs konar aðgerðir í gangi, jafnvel lagasetning á hinu sama háa Alþingi og er að fjalla um byggðamálin sem virkar í öfuga átt. Það er t.d. alveg ljóst að ákveðnir þættir í málefnum undirstöðuatvinnugreinanna, stefnumótun og lagasetning hér hefur verkað mjög neikvætt á fjölmörg byggðarlög.

Það er alveg ljóst að breytingar sem menn hafa tekið ákvarðanir um og sem Alþingi er vel meðvitað um, annaðhvort stendur beinlínis sjálft fyrir eða horfir aðgerðarlaust á gerast, t.d. í samgöngumálum, eru landsbyggðinni gríðarlega mótdrægar. Það á við um það að strandsiglingar hafa lagst af. Það er mikið áfall fyrir atvinnustarfsemi og framleiðslustarfsemi í sjávarútvegsbyggðunum hringinn í kringum landið og sérstaklega þeim sem fjærst liggja frá meginhöfnum. Það á við um það t.d. að áætlunarflug hefur lagst af á mörgum stöðum. Auðvitað er það áfall fyrir slíka staði að missa í mörgum tilvikum sínar einustu almenningssamgöngur. Vegabótunum miðar allt of hægt. Vegaframkvæmdunum miðar allt of hægt.

Breytingar í almannaþjónustu, einkavæðing almannaþjónustunnar og stórfelldur niðurskurður hennar á fjölmörgum svæðum á landinu, er auðvitað gríðarlega mikið áfall fyrir þau byggðarlög sem fyrir því verða. Það þýðir ekki að horfa fram hjá því. Hægt er að taka dæmi um staði, 300--500 manna byggðarlög sem hafa kannski misst á milli tíu og tuttugu opinber störf á allra síðustu árum. Það munar um minna en að kannski 5% vinnumarkaðarins, einmitt það sem skapaði þó örlitla fjölbreytni, hefur horfið í burtu og það eru að stórum hluta til opinber störf.

Ætli það væri ekki nær, ef menn vildu styðja við t.d. byggðina í Borgarfirði eystra, að láta þá hafa prestinn aftur, prestsembættið? Við erum stundum að tala um hluti sem eru komnir niður í eitt einasta starf en geta skipt mjög miklu máli fyrir viðkomandi lítið byggðarlag.

[17:15]

Hlutir af þessu tagi eru að reytast í burtu úr þeim byggðarlögum sem eiga mest undir högg að sækja og eiga í mestri vök að verjast, hægt og hljótt í gegnum ákvarðanir sem ýmist eru teknar hér eða vegna hluta sem Alþingi horfir aðgerðalaust á gerast. Þetta svíður fólki þegar það er að heyja þarna baráttu sína.

Launaþróunin í landinu er landsbyggðinni svo mótdræg að það er hroðalegt að horfa á það. Á síðustu fimm til átta árum hefur dregið í sundur um 10% í meðallaunum milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Þessi munur var alveg fram um 1995 óverulegur, hann var 2--3% á nokkurra ára bili en er núna kominn vel á annan tug prósentustiga, og það dregur hratt í sundur nákvæmlega núna þessi missirin sem við upplifum.

Viðhorf lánastofnana, viðhorf ýmissa stórra opinberra aðila hafa gjörbreyst til hins verra gagnvart landsbyggðinni. Bankarnir ómaka sig ekki á því að líta á lánsumsóknir frá fyrirtækjum eða einstaklingum ef þeir sjá að lögheimilið er úti á landi, þeir hafa ekki áhuga á því, nenna því ekki. Það er miklu meira spennandi að vera hérna að spila matador um hlutabréfakaup og sölu í stórfyrirtækjum --- og þá eru milljarðarnir á lausu, hvort sem þarf að sletta þeim í Íslandssíma eða eitthvað annað. En ef það er lánafyrirgreiðsla til veikburða tilrauna manna til að koma löppum undir atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er það þvílíkur barningur að það hálfa væri nóg.

Þarna hafa líka pólitískar ákvarðanir skipt sköpum því að atvinnugreinarnar hafa misst fjárfestingarlánasjóði sína og þeim er núna beint á bankakerfið, sem hefur lítinn áhuga á því að taka áhættu eða teygja sig eitthvað ef um atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er að ræða, þar sem fasteignaveð eru ekki tekin gild o.s.frv.

Fleira mætti nefna í þessum dúr, herra forseti, sem er þarna raunverulega undirliggjandi og verður ekki leyst með áætlanagerð eða skýrslum þó að þær séu alls góðs maklegar sem slíkar.

Að lokum er þetta spurning um afl þeirra hluta sem gera skal. Að lokum snýst þetta um pólitískan vilja til að verja til þessa fjármunum og að vega upp og jafna í sem allra flestum tilvikum þann aðstöðumun sem við er að glíma. Öðruvísi verður þetta ekki gert. Þá erum við komin að spurningunni um það, herra forseti, hvort ein þjóð eigi að búa í landinu eða tvær eða fleiri í þeim skilningi málsins. Það mun reynast nákvæmlega eins hér og annars staðar að tiltekinn undirstöðuaðstöðumun verður að jafna með opinberum stjórnvaldsaðgerðum. Það er gert alls staðar, bæði á smærri og stærri skala. Það er gert innan annarra landa, eins og í Noregi, Skotlandi og víðar, og það er meira að segja gert innan sjálfs Evrópusambandsins, sem margir trúa nú á. Þar eru viðamikil prógrömm í gangi til þess að vega upp mun í lífskjörum og atvinnustigi innan einstakra landa, milli landa og svæða. Af hverju? Jú, það er vegna þess að menn átta sig á því að ef einhver eining af þessu tagi á að fá staðist og hún ætlar að vera til sem slík, þá verður að vinna gegn þeim hlutum sem annars búa til óþolandi gjá í lífskjörum og aðstöðu milli manna eftir því hvar þeir búsetja sig og það er hlutur sem við viljum ekki þola, herra forseti.