2002-02-11 17:25:28# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ósköp er það nú alltaf leiðinlegt að sjá menn fara flata á skeiðinu. Það er vissulega leiðinlegt að sjá hross hlaupa upp en það er þó sýnu skárra en að sjá þau fara flöt. Það gerist stundum hjá skeiðlægum hestum. Og það gerðist hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og það sama gerðist í ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. Það var álverið sem kom, ha, þar er lausnin.

Bíðum við, af hverju ... (Gripið fram í.) Ef þetta er svona einfalt, hv. þingmenn, af hverju er þá ekki bara byggt eitt álver í hverjum firði, ef það er lausnin? (ArnbS: Stefnum að því.) Hvað er verið að gera með þessa þykku skýrslu hérna, þetta nýja pródúkt frá ráðherra? Hér er talað um alla skapaða hluti, samgöngur, menntun, rannsóknir, þróun, líftækni, ferðaþjónustu. Það er fínt, það er þannig sem við eigum að gera þetta. Það er einn kafli um álver. En af hverju er þetta svona ef álverið er lausnarorðið og ekkert annað þarf að gera?

Þessi málflutningur, herra forseti, er svo ofboðslegur þegar fólk kemur hér og ætlar að einfalda út úr myndinni umfjöllun, efnislega umfjöllun um flókin, djúprætt samfélagsleg mein eins og byggðaröskun er í einu landi, og koma svo með þennan botn í málið: Álver! Það kostar 100--120 milljarða stykkið. Eigum við að leysa byggðavandann á Íslandi með álveri í hvern fjörð? Er hægt að gera það? Nei, ætli það? Vita menn ekki sem er að ekki þarf að fara lengra út frá Fjarðabyggð, ef hún er til umræðu, en suður á Djúpavog eða norður á Vopnafjörð og þá yppa menn öxlum því að þeir vita vel að það breytir sáralitlu fyrir þá, hver sem hin umdeildu áhrif verða fyrir Reyðarfjörð og nágrenni, hvað þá aðra landshluta.

Það er svo morgunljóst, herra forseti, að eitt stykki álver sem e.t.v. kemur og e.t.v. ekki á einum stað á landinu getur aldrei orðið innlegg í hinn almenna atvinnu- og byggðavanda á Íslandi. Það þarf ekki fleiri orð um það. Og það er óskaplega dapurlegt að heyra menn leggja sjálfa sig á kviðinn, verandi á sæmilegu skeiði, eins og þingmenn gera hér þegar þeir taka svoleiðis upp í sig. (Gripið fram í.)