2002-02-11 17:34:55# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GunnS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Margar spurningar koma upp í hugann þegar málefni byggðanna eru til umræðu. Við þessa umræðu langar mig að rifja upp skýrslu sem gefin var út árið 1993. Hana vann sérstök nefnd sem skipuð var af hæstv. ríkisstjórn á þeim tíma, árið 1992, og var falið að kanna hvaða opinberar stofnanir mætti flytja út á land. Í nefndinni sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka: Kristín Ástgeirsdóttir, þáv. alþingismaður, Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður og núverandi hæstv. byggðamálaráðherra, Margrét Frímannsdóttir alþingismaður, Gunnlaugur Stefánsson, þáv. alþingismaður, Tómas Ingi Olrich alþingismaður og Hrafnkell A. Jónsson, þáv. formaður Verkalýðsfélagsins Árvakurs.

Þessi nefnd skilaði mjög ítarlegri skýrslu árið 1993 um flutning átta ríkisstofnana út á land. Um skýrsluna urðu allmiklar umræður, og mismunandi sjónarmið komu fram eins og eðlilegt er en það sem lá að baki niðurstöðu nefndarinnar sem var samhljóða var að þær stofnanir sem lagt var til að fluttar yrðu út á land voru landsbyggðastofnanir með aðsetur í Reykjavík. Með öðrum orðum var meiningin að flytja opinberar stofnanir heim til sín.

Þessar stofnanir voru Byggðastofnun sem nefndin gerði tillögu um að flutt yrði til Akureyrar, Landhelgisgæsla Íslands til Keflavíkur, Landmælingar Íslands á Selfoss, Rafmagnsveitur ríkisins á Egilsstaði, Skipulag ríkisins á Sauðárkrók, Skráningarstofa ríkisins á Ísafjörð, Vegagerð ríkisins í Borgarnes og Veiðimálastofnun til Akureyrar. Að auki lagði nefndin í mjög ítarlegu áliti til flutning stofnana að hluta út á land með því að þar yrðu sett á fót útibú. Síðan er fjallað ítarlega um almennar umboðsstofnanir, sérstakur kafli í skýrslunni er um fjarvinnslu og síðan sérstakur kafli um það hvernig opinberar stofnanir gætu skilað tilteknum verkefnum til stofnana sem þá þegar voru staðsettar á landsbyggðinni.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sem mest hafi raskað byggð í landinu undanfarna áratugi sé útþensla ríkisins á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið gífurleg samanborið við að þessi þróun hefur verið neikvæð á landsbyggðinni. Ríkisvaldið sem er stærsti vinnuveitandi í landinu hefur eðlilega mikil áhrif á alla atvinnuþróun.

Fjárfestingarstefna ríkisins hefur líka verið gífurleg á höfuðborgarsvæðinu og áhrif hennar hafa raskað byggðajafnvæginu í landinu. Þetta þrennt, þjónustustefna ríkisins, atvinnustefna ríkisins og fjárfestingarstefna ríkisins, hefur haft úrslitaáhrif á það hvernig byggðin í landinu hefur þróast á undanförnum áratugum. Það sem þessi hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa náð tökum á er að snúa öfugþróuninni við því enn er verið að stofna nýjar ríkisstofnanir sem ættu og gætu átt heima á landsbyggðinni en eru samkvæmt sjálfvirku lögmáli staðsettar í Reykjavík.

Þegar ný stofnun er sett á fót og henni valinn staður er gengið að því sem vísu, sem náttúrulögmáli, að stofnunin eigi að vera í Reykjavík, burt séð frá því hvaða hlutverki hún á að gegna, hvaða þjónustu stofnunin á að veita og hvaða starfsemi á að fara þar fram. Ef um það yrði að ræða að slík stofnun ætti að vera einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík þarf jafnan að ræða það mjög ítarlega, og þá eru skiptar skoðanir. Það virðist vera samofið inn í vitund embættiskerfisins í landinu, inn í vitund ríkisstarfseminnar, að starfsemin eigi fyrst og síðast að fara fram á höfuðborgarsvæðinu og síðan mæti landsbyggðin afgangi.

Segja má að hvert einasta nýtt opinbert starf sem verður til og vistað er á landsbyggðinni krefjist mikillar baráttu. Það þarf að breyta þessari hugsun og það þarf að breyta þessari stefnu. Það má með gildum rökum segja að sú byggðastefna sem í gildi hefur verið í landinu marga undanfarna áratugi hafi verið sú að byggja höfuðborgarsvæðið upp, og það er stefna út af fyrir sig. Hvort sem hún er óafvitandi eða gerð af ráðnum hug er það stefna. Auðvitað á að búa vel að allri stjórnsýslu í Reykjavík og auðvitað á að búa vel að höfuðborginni og æðstu ríkisstofnunum. En það má ekki gleymast að við búum í stóru landi og íbúarnir verða að hafa jafnan aðgang að hinni opinberu þjónustu, og hinni opinberu þjónustu verður að dreifa á réttlátan hátt. Það er hægt að rekja mörg dæmi um það hver aðstöðumunur fólks er í þessum efnum þótt ég geri það ekki að sinni.

Þess vegna legg ég mikla áherslu á, og ég tel að það sé réttlætismál, að sú landsbyggðarþjónusta sem fram fer af hálfu ríkisins sé vistuð heima hjá sér þar sem þjónustan er veitt. Þær stofnanir sem ég vitnaði til fyrr, herra forseti, sem viðkomandi nefnd gerði tillögur um að yrðu fluttar frá Reykjavík eiga það nefnilega allar sammerkt að vera landsbyggðarstofnanir sem veita fyrst og fremst landinu og dreifbýlinu þjónustu. Tvær af þessum átta stofnunum hafa verið færðar frá Reykjavík og út á land. Byggðastofnun var flutt á Sauðárkrók með góðum árangri. Árangur af þeim flutningi hefur orðið mjög góður og mér segir svo hugur að stofnunin eigi eftir að eflast þar sem hún er staðsett núna til að veita víðtæka þjónustu í landinu öllu.

Þá hafa Landmælingar Íslands verið fluttar á Akranes og þetta er afraksturinn, herra forseti. Nú er ég nokkuð viss um að hæstv. byggðamálaráðherra man vel eftir þessum nefndarstörfum. Hún lagði sig fram og lagði þar mikið af mörkum en það hlýtur að valda vonbrigðum að ekki skyldi hafa verið gengið lengra í þessum efnum en raun ber vitni. Níu ár eru liðin síðan þessi skýrsla leit dagsins ljós.

Einn þáttur í þessari skýrslu fjallar um fjarvinnslu. Nú er það kunnugt að nokkrar fjarvinnslustöðvar hafa verið settar á fót á landsbyggðinni. Það hefur ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. Nokkrar berjast áfram. Það sem fyrst og fremst hefur valdið erfiðleikum og dregið verulega úr vonum um að þessar mikilvægu stöðvar festi rætur og eignist bjarta framtíð er að hið opinbera hefur brugðist í því að flytja verkefni til þessara stöðva eins og greinilega var gefið í skyn þegar farið var af stað með þessa starfsemi.

Ég var áheyrandi að ræðum þegar slík stöð var opnuð á Stöðvarfirði á sínum tíma og ég var áheyrandi að fögrum fyrirheitum um að hið opinbera mundi leggja sitt af mörkum til að flytja verkefni frá stjórnsýslustöðvum í Reykjavík til þessara stöðva. Eftirtekjan hefur verið afar rýr, það verður að segjast eins og er. Ég ætla ekki að kenna hæstv. ráðherrum einum um hvernig komið er. Það virðist vera afar mikil tregða í embættismannakerfinu, í stjórnsýslukerfinu, um að sjá af nokkru af verkefnum til starfsstöðvanna úti á landi. Þessi tregða er alvarlegt vandamál. Ég trúi því ekki að hún stafi af því að embættismenn treysti ekki þessum frjálsu stöðvum til að annast mikilvæg verkefni. Ég held fremur að hér sé á ferðinni hið alkunna tregðulögmál. Þess vegna þarf sterk pólitísk bein til að brjóta þennan múr, til að brjótast í gegnum þetta lögmál.

Hæstv. byggðamálaráðherra. Ég vitnaði í upphafi máls míns til skýrslu sem gefin var út 1993, um flutning opinberra stofnana út á land, og sem við áttum aðild að. Hún var afrakstur nefndarstarfs þar sem við störfuðum saman og urðum sammála, og öll nefndin var sammála og einhuga. Þetta var stórhuga verk og við bundum vonir við að þetta verk mundi skila árangri. Ég tel að ekki sé nægilega að gert að gefa fagrar yfirlýsingar um góðan vilja eins og þessi skýrsla vitnar um. Það þarf að láta verkin tala. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur nú einstakt tækifæri til að láta verkin tala og mér er kunnugt um að margir bíða eftir því að sjá árangur koma í ljós.