2002-02-11 18:17:32# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Enn einu sinni ræðum við Byggðastofnun og áætlanir um byggðamál. Ég hef áður tekið þátt í þessari umræðu og bent á að allar aðgerðirnar byggja á ónáttúrulegum og óskynsamlegum aðgerðum, styrkjum og lánum til verkefna sem enginn annar vill taka þátt í eða lána til. Þessi styrktu verkefni drepa svo niður önnur heilbrigðari verkefni og skaða þannig landsbyggðina. Öll þessi umræða byggir á aumingjagæsku og yfirskyggir það sem vel er gert. Þróttmikil fyrirtæki í sjávarútvegi gleymast. Margs konar nýsköpun og margt fleira gleymist.

Þess vegna hef ég lagt til að Byggðastofnun yrði lokað og það eigi að fara að tala landsbyggðina upp í staðinn fyrir að tala hana stöðugt niður og venja hana við vælutón og betlistaf.

Þau eru mörg úrræðin sem mönnum dettur í hug. Eitt er t.d. mismunandi skattar og mismunandi greiðslur námslána. Þá mundi ég nú leigja mér herbergi á Siglufirði ef sú yrði staðan. Og hver ætlaði að tékka það af hvort ég byggi þar eða ekki? Og hvernig ætla menn að fara að því að hafa eftirlit með því hvar fólk býr yfirleitt? Ætla þeir að kíkja á hvar það sefur á nóttinni? Það skyldi nú ekki vera. Að láta sér detta annað eins í hug!

Herra forseti. Ástæða þess að ég steig hér í pontu til að taka enn einu sinni þátt í þessari umræðu og þessu væli er sú að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði að aðalbyggðavandinn væri vöxtur ríkisins, að hans lausn væri dreifstýrt ríkisvald um allt land. Nú er það svo að ríkið er í eðli sínu miðstýrt kerfi. Það er ekki hægt að dreifstýra því. Þess vegna væri rétt ályktun að minnka ríkisbáknið eins og ég hef margoft bent á. (Gripið fram í.) 20 þúsund ríkisstarfsmenn eru aðallega staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta veit landsbyggðarfólk þannig að einkavæðing er lausnin og liður í því að leysa byggðavandann og ekkert annað.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson er að sjálfsögðu á öndverðri skoðun og bendir á örfáar uppsagnir sem átt hafa sér stað í kjölfar hlutafjárvæðingar, ekki einkavæðingar, hjá Íslandspósti. En hvað skyldu margir starfsmenn Íslandspósts vera staðsettir á höfuðborgarsvæðinu og hve margir úti á landi? Það væri gaman að fá þá tölfræði? (Gripið fram í: 800.) Eða hvað eru margir starfsmenn ríkisfyrirtækjanna Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands staðsettir á Reykjavíkursvæðinu?

Það er nefnilega þannig að öll þessi ríkisfyrirtæki eru meira og minna á Reykjavíkursvæðinu vegna þeirrar miðstýringar sem ríkið er. Ríkið er miðstýrt kerfi og allar samgöngur í landinu miðast við Reykjavík og ráðuneytin að sjálfsögðu. Menn komast ekki frá Akureyri til Egilsstaða nema fara fyrst til Reykjavíkur, ekki með flugi alla vega.

Svo gat hv. þm. þess að virkjanir og álver væru ríkisvæðing og ég er honum hjartanlega sammála. Landsvirkun á ekki að vera í ríkiseigu. Við eigum að selja Landsvirkjun og við eigum að bjóða út virkjunarleyfin. Það er nefnilega svo í dag, herra forseti, að einstaklingum er bannað að virkja, hreinlega bannað að virkja nema eitthvert smáræði, bæjarlæk eða svoleiðis. Svo vil ég benda á að Reyðarál er nú ekki á vegum ríkisins. Það er einkafyrirtæki sem er að leita að fjárfestum út um allan heim og hv. þm. Ögmundur Jónasson getur tekið þátt í því hlutafjárútboði væntanlega eins og aðrir.