2002-02-11 18:33:31# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hóf ræðu sína á því að tala um skattamál, mismunandi skattprósentu. Nú vil ég spyrja hv. þm. hvort hann líti svo á að það mundi auka atvinnustarfsemi og uppbyggingu á landsbyggðinni ef skattprósenta fyrirtækja yrði þar önnur en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég spyr að þessu vegna þess að hv. þm. flutti tillögu fyrir ekki löngu síðan um að tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi skyldi vera 10% til að efla samkeppnisstöðu þeirra gagnvart fyrirtækjum og skattaumhverfi í öðrum löndum. Á ekki hið sama við varðandi fyrirtæki á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, þegar tekið er tillit til annarra álagna eins og þungaskatts, virðisaukaskatts og annars sem bitnar meira á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu?