2002-02-11 18:36:16# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar, munnlega skýrslu frá hæstv. iðn.- og viðskrh. sem er jafnframt byggðamálaráðherra.

Ég vil byrja á að geta þess sem staðið hefur upp úr stjórnarliðum hér í umræðunni. Þeir telja að einkum tvennt hafi áunnist á þessu tímabili, þ.e. áfangi í jöfnun húshitunarkostnaðar með niðurgreiðslu á rafmagni á köldum svæðum og síðan jöfnun námskostnaðar.

Auðvitað fögnum við öllum slíkum áföngum en staðan er eigi að síður uggvænleg í byggðamálum eins og hér hefur komið fram. Við höfum staðið frammi fyrir fólksflótta til höfuðborgarsvæðisins síðustu árin og í mínum huga er fiskveiðistjórnarkerfið grunnástæða hans að stórum hluta. Við höfum notað drjúgan tíma hér á hinu háa Alþingi til að ræða þau mál og hvernig fiskveiðistjórnarkerfið hefur leikið hinar dreifðu byggðir. En þrátt fyrir fiskveiðistjórnarkerfið og þau mistök sem þar eru í gangi þá stuðlar fleira að þessari óheillavænlegu þróun.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á það áðan að einkavæðingarstefnan eða hlutafélagavæðing ríkisstjórnarinnar ætti þarna stóran hlut að máli. Í kjölfar einkavæðingar- og hlutafélagavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar í opinberri þjónustu lenda fyrirtækin í einkavæðingar- og hagræðingarbylgju sem hefur orðið til að veikja stöðu hinna dreifðu byggða svo um munar. Víða um land er staðan orðin slík að öll fyrirtæki sem eitthvað kveður að hafa farið í gegnum svokallaðan hagræðingarfasa og aðeins útibú þeirra fyrirtækja standa eftir á landsbyggðinni. Þetta er óheillavænleg þróun sem við höfum barist á móti, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, eins og við höfum haft afl til á undanförnum árum.

Hér hefur verið komið inn á bankakerfið þar sem nú er svo komið að hlutafélagavæðing ríkisbankanna hefur orðið til þess að æ erfiðara er fyrir fyrirtæki úti á landi að fá fyrirgreiðslu í bankakerfinu til starfsemi, hvað þá að fá fyrirgreiðslu til nýrrar uppbyggingar. Bankarnir hafa meira eða minna beitt sér hér á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel beitt afli sínu til þess að fá fyrirtæki sem sækjast eftir uppbyggingarfyrirgreiðslu til að flytja sig um set og til höfuðborgarsvæðisins með starfsemi sína. Þessar staðreyndir eru landsbyggðinni auðvitað mjög mótdrægar og við höfum alltaf bent á það í málflutningi okkar, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, að við viljum að hið opinbera eigi öflugan og góðan banka sem hafi það að markmiði að byggja landið allt og veita lánafyrirgreiðslu um allt land.

Reyndin er hins vegar önnur. Bara með formbreytingunni, með hlutafélagavæðingunni, er eins og andrúmsloftið og innstilling þeirra sem stjórna bönkunum hafi orðið til þess að þeir dragi við sig að veita þjónustu annars staðar en á hinum svokölluðu vaxtarsvæðum. Þetta er að mínu mati röng stefna vegna þess að bankar þurfa ekki að að veita ölmusur eða gjafir þó að þeim sé uppálagt, samkvæmt stefnu eigandans, að lána út um allt land.

Við höfum mjög skýr dæmi um að fyrirtæki á peningamarkaði, t.d. sparisjóðirnir, eru nánast alls staðar með þá stefnu að lána og styrkja heimabyggð sína. Sparisjóðunum hefur gengið dável á undanförnum árum og skilað álitlegum hagnaði þannig að það að gefa bönkum eða peningastofnunum pólitíska línu þarf ekki að skaða starfsemina að nokkru leyti. Einnig má benda á peningafyrirtæki eins og Norræna fjárfestingarbankann sem hefur klára stefnu um að stuðla að þróun og uppbyggingu á Norðurlöndunum. Það er sú lína sem bankinn vinnur eftir þó að hann vinni auðvitað eftir lögmálum peningastofnunar og reyni að gæta hagsmuna sinna og tapa ekki fé. Þetta er gríðarlega stórt mál hvað varðar möguleika og þróun landsbyggðarinnar.

Á sama hátt höfum við farið í gegnum einkavæðingarfasa eða hlutafélagavæðingu, t.d. í samgöngukerfinu, sem hefur haft gríðarleg áhrif á landsbyggðina. Ríkisstjórnin hefur t.d. lagt niður Ríkisskip sem menn eru nú farnir að sakna. Núna eru flutningarnir komnir á land að meira eða minna leyti, miklu minni þjónusta við ströndina með skipum. Menn í atvinnulífinu í hinum dreifðu byggðum eru jafnvel farnir að kalla eftir þeim möguleika að sett verði upp fyrirtæki sem veitti þjónustu í líkingu við þá sem Skipaútgerð ríkisins veitti. Þetta eru hlutir sem tala sínu máli.

Ríkisstjórnin beitti sér líka fyrir því á sínum tíma að gefa allt frjálst í flugsamgöngum og etja flugfélögunum til að keppa hvert við annað. Við þekkjum afleiðingarnar. Hver maður gat sagt sér að hömlulaus samkeppni þar sem menn sáust ekki fyrir um verð og fóru kannski niður í 7, 8 þús. kr. á leggnum milli Akureyrar og Reykjavíkur, mundi aldrei ganga til lengdar. Afleiðingin varð sú að við það að taka af sérleyfismöguleikana varð óheft samkeppni í nokkur missiri sem leiddi til þess að bæði fyrirtækin sem harðast kepptu urðu nánast gjaldþrota. Við sjáum til hvers þessi stefna leiddi. Hún leiddi til þess að viðkomustöðum í fluginu fækkaði stórlega og það sem verra er, þjónustan er seld á verði sem enginn venjulegur maður ræður við að notfæra sér nema endrum og eins. Ég held að fyrir venjulegan mann sem kaupir flugmiða til Akureyrar sé verðið í kringum 22 þús. kr. á meðan við sjáum auglýsingar um að ferð til London sé á 19.800 kr.

Í svo strjálbýlu landi eigum við ekki að reyna að nota svona lausnir, sem mola undan okkur og gera landsbyggðinni erfitt fyrir. Verra er að þegar menn hafa þessa stefnu, hæstv. ríkisstjórn hefur þá stefnu að einkamarkaðurinn eigi að keppa og hafa sinn gang eftir lögmálum peninganna, án þess að sjá fyrir þróunina og fara í hliðarráðstafanir á grunni þess sem þeir hafa ákveðið. Af hverju fara menn t.d. ekki, í kjölfar þess að hleypa öllu frjálsu og sjá fyrir sér þá þróun að flogið verði á fjóra eða fimm staði á landinu, í massífa uppbyggingu á almenningssamgöngukerfi á landi?

Hér hafa verið fluttar tillögur um að efla almenningssamgöngukerfið. Það byggist á gömlu sérleyfiskerfi sem þjónar engan veginn nútímasamfélagi. Menn skella hins vegar skollaeyrum við öllum tillögum og segjast ætla að láta þróunina hafa sinn gang, eins og sagt er. Þetta er þróunin, segja hv. þm. stjórnarinnar, og við getum ekkert að gert.

Í öllum öðrum löndum taka menn ákvarðanir í framhaldi af slíku sem þeir vita fullvel til hvers leiðir, t.d. í flugmálum og hvað varðar strandsiglingarnar. Það er himinljóst að menn verða að vita, þegar þeir taka ákvarðanir af þessu tagi, til hvers þær muni leiða.

Í nýrri samgönguáætlun eru t.d. engin áform um að bæta almenningssamgöngukerfið á grunni þess sem átt hefur sér stað í fluginu. Það er alger forsenda þess að þeir staðir sem þó er flogið til núna geti þjónað hinum dreifðu byggðum. Þegar við tölum um byggðamál verðum við að taka öll þessi atriði með í reikninginn, grunnþjónustuatriðin. Það er meginmálið í möguleikum landsbyggðarinnar til þess að vaxa og öðlast viðgang í framtíðinni. Án stoðkerfis, án grunnþjónustu er tómt mál að tala um þetta.

[18:45]

Hvað orkumálin varðar höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði marglagt til að auka framlög til Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins veita grunnþjónustu í orkudreifingu um nánast allar hinar dreifðu byggðir og eru núna meira að segja með Orkubú Vestfjarða innan borðs.

Allir vita að landsbyggðin býr við hærra orkuverð vegna þess að Rarik er gert að dreifa inn á langóhagstæðustu markaðina, þ.e. í dreifbýlinu. Samt afgreiðum við fjárlög á hverju ári þar sem framlög ríkisins á móti til Rariks eru í engu samræmi við það sem fyrirtækið þarf á að halda. Hér á hinu háa Alþingi hefur þetta fyrirtæki verið að fá framlög úr ríkissjóði vegna dreifbýlisveitna upp á kannski 100--130 millj. En af öllum gögnum má sjá að fyrirtækið þarf lágmark 700--800 millj. á ári til að geta þjónað grunnþörfum hinna dreifðu byggða. Þarna eru stóru póstarnir. Fyrirtæki í framleiðslu úti á landi borga 5--8 kr. fyrir kílóvattstundina. Ef við getum ekki staðið myndarlega að grunnþjónustunni hvað þetta varðar fer illa fyrir hinum dreifðu byggðum.

Hið sama gildir um fjarskiptin. Nú er sala Símans á dagskrá. Eftir hlutafélagavæðingu Símans höfum við ekki enn getað komið á grunnþjónustu við hinar dreifðu byggðir, sem eru forsenda þess að menn geti stundað nútímaatvinnurekstur, t.d. með ljósleiðurum eða viðunandi örbylgjuþjónustu til að hægt sé að stunda tölvutengdan rekstur. Þetta eru grundvallaratriði sem verða að vera í lagi. Þau komast ekki í lag í dreifbýlu samfélagi eins og Íslandi ef einkareksturinn á að ráða ferðinni á alla lund. Núverandi ríkisstjórn bætir ekki ástandið með hlutafélagavæðingunni, sölu á stoðkerfinu sem er grunnþátturinn, grundvallaratriði til að við getum byggt á einhverju til frambúðar og stofnað til fyrirtækja sem byggja á nýjungum.

Virðulegi forseti. Hvað varðar skóla og menntamál er í raun hið sama uppi á teningnum. Við höfum marglagt fram, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, tillögur um að unglingar og börn geti stundað nám í heimabyggð eins lengi og kostur er. Það er líka ástæða þess að því að fólk flytur. Menn þora ekki og vilja ekki senda ung börn sín ein um langan veg. Hver vill það í samfélagi sem sér ekki fyrir almenningssamgöngum þar sem það er háð samvinnu og útsjónarsemi hvort börnin komast heim t.d. um helgar, langan veg? Þau þurfa kannski að fara 150--200 km til að stunda nám. Stór landsvæði búa við það slaka þjónustu, sérstaklega seinni ár, eftir að flugið lagðist af til hinna minni staða. Það var þannig, ef við lítum fimm til sjö ár aftur í tímann, að á næsta flugvöll var ekki nema hálftíma til þriggja stundarfjórðunga akstur frá langflestum stöðum á landinu.

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um möguleika landsbyggðarinnar er það í mínum huga engin spurning að við erum að slást um grundvallarviðhorf til reksturs og uppbyggingar samfélagsins. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að allir þessir grunnpóstar, heilbrigðismál, menntamál, bankamál, orkumál og fjarskiptamál séu stoðkerfismál sem reka eigi á sameiginlegum grunni. Við eigum öll að taka þátt í þessum rekstri. Við eigum að bera ábyrgð á honum og haga því þannig að þessi þjónusta sé á boðstólum fyrir alla Íslendinga hvar sem þeir búa í landinu. Það er meginmálið.

Að vera með garðkönnu og slökkva elda hér og þar í samfélagi sem keyrir hröðum byri inn í einkavæðingu og kapítalisma getur ekki gengið til lengdar. Við viljum vinna að því að leiðrétta kúrsinn sem allra fyrst þannig að þessir samfélagsþættir, grunnþjónustu- og stoðkerfisþættir, verði hafnir til vegs og virðingar á ný í formi þess að þjóðin reki þjónustuna sameiginlega á eigin forsendum fyrir okkur öll, ekki bara fyrir fáa sem borgar sig að þjóna eins og einkamarkaðurinn gerir.