2002-02-11 18:53:09# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft lýst því hér úr ræðustóli að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum á því að ríkið eigi að eiga einn banka. Við höfum verið andvíg sölu ríkisbanka. En við höfum þó sagt úr ræðustóli að við mundum gangast inn á að annar ríkisbankanna væri alfarið í eigu ríkisins og hefði markmið. Það er ekkert gamaldags hugsun í sjálfu sér. Slík fyrirtæki geta haft markmið og eru rekin víða um lönd.

Ég hef nefnt Norræna fjárfestingarbankann í því sambandi. Ég hef einnig nefnt sparisjóðina sem langflestir hafa að leiðarljósi að efla og treysta heimabyggð sína með fyrirgreiðslu þar. Auðvitað vinna allar slíkar stofnanir á grunni peningalegrar fyrirgreiðslu og lánastarfsemi og meta mál sín út frá því. Það sýnir bara rekstur sparisjóðanna víðast hvar.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um sýn okkar varðandi stöðu sveitarfélaganna. Við höfum margoft lýst því yfir, hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að það þjóni ekki neinum tilgangi að véla um sameiningu sveitarfélaga sem eru komin mjög illa fjárhagslega. Þess vegna höfum við lagt fram tillögur, lögðum t.d. fram tillögu núna við gerð fjárlaganna, um að stíga fyrsta skrefið til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaga sem eru í vandræðum vegna félagslega íbúðakerfisins. Ef menn ætla að sameina sveitarfélög er grundvallaratriðið að verið sé að sameina tvö sjálfstæð sveitarfélög en ekki tvo aðila sem komnir eru á hnén. Reynslan af slíkri sameiningu er vond en tvær einingar með fjármálin í lagi geta sameinast á þeim grunni sem það býður upp á og það er grundvallaratriði. Sameining með valdi leysir engan vanda.