2002-02-11 18:55:18# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki á móti því að ríkið eigi banka eða hlut í banka. Ég er hins vegar á móti því að ríkið reki starfsemi sem ruglar það samkeppnisumhverfi sem fyrir er. Vandamálið er ekki eignarhaldið hvað þetta varðar heldur að ef menn ætla ríkisbanka að sjá um þjónustu sem á að vera á einhverju allt öðru verði en aðrir geta boðið þá lenda menn í vanda sem er óleysanlegur í samkeppnisumhverfi. Það er ekki hægt frá hendi ríkisins. Ríkið er búið að eiga þessa banka á undanförnum árum. Það eru ár og dagur síðan ríkisbankarnir hættu að gera það sem hv. þm. vill að þeir geri. Það var ekki vegna þess að búið væri að selja þá. Það var vegna þess að menn töldu ekki fært að rugla samkeppnisumhverfið með þeim hætti. Auk þess er ekki er þörf á því. Við höfum sjóði sem geta sinnt því sem hv. þm. talar um og við eigum að beita þeim en ekki fara út í rekstur allsherjarbanka á vegum ríkisins.

Þegar hv. þm. ræddi um illa stödd sveitarfélög fannst mér það eiginlega vera flóttaviðbára hjá hv. þm. Sannleikurinn er sá að þeir hafa ekki viljað líta við því að teikna sveitarfélögin upp á nýtt, sem þarf að gera. Litlu sveitarfélögin geta ekki boðið upp á þá þjónustu sem þarf að veita. Þau geta ekki gert það sem á þarf að halda þegar kreppir hvað varðar atvinnu, þá geta þau ekki skaffað þjónustuna. Það verður ekki leyst með því að taka ákvarðanir einhvern tímann í framtíðinni, einfaldlega vegna þess að tíminn er runninn út. Menn þurfa á því að halda að gera þetta núna.