2002-02-11 18:59:48# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda svolítið áfram með þessa bankaumræðu. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum það í hug að banki með allt aðrar skyldur en aðrir bankar og lánar út á landsbyggðina á betri kjörum ... (ÖJ: Nei.) Nei, til hvers er hann þá? (Gripið fram í: Með sömu kjör.) Nú er ég hissa. Hvað hafa menn að gera við lánsfé á sömu kjörum úti á landsbyggðinni? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

[19:00]

Hæstv. forseti. Þetta er í góðu lagi. En ég segi aftur: Hvað á þessi banki sem á að þjóna öllu landinu að gera með að lána mönnum á sömu kjörum og eru boðin núna? Ég sé ekki hvaða tilgangur er með því. Ég hef alltaf skilið þetta þannig að þessi banki ætti að hafa skyldur og sjá til þess að þjónustan væri til staðar um allt land og geta boðið hagstæðara lánsfé en hinir sem starfa á svæðinu. Ef hann getur það ekki tel ég ástæðulaust að reka slíka stofnun. Þá er engin forsenda fyrir því að halda slíku fram.

Síðan um sveitarfélögin. Það hefur lengi verið bjargföst trú mín að ef stjórnvöld taki á hvað varðar sveitarfélögin þá muni það verða öflugasta byggðaaðgerð sem hægt er að fara í. Ég held því fram að það þurfi að setja mikla peninga í það. Menn geta þurft að koma til móts við skuldug sveitarfélög, sannarlega. Þar tek ég undir orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar áðan. Menn geta sannarlega þurft að taka á með sveitarfélögunum til koma fjármálunum í lag um leið og sveitarfélög eru stækkuð og gerð öflugri.

En ég er ekkert að tala um að sameina einhverja fámenna hreppa. Ég er að tala um að búa til sveitarfélög sem eru öflug, sveitarfélög sem geta séð til þess að framhaldsmenntun sé í boði á sínu svæði, sem geta séð til þess að heilbrigðisþjónusta sé á svæðinu og geta tekið á þegar á þarf að halda, geta veitt alla bestu þjónustu, alla þjónustu sem sveitarfélög eiga að veita. Við vitum að lítil sveitarfélög --- það kom meira að segja fram fyrir nokkrum dögum --- hafa ekki einu sinni reglur, hafa ekki einu sinni sett sér reglur um hvernig eigi að koma til móts við fólk sem þarf á aðstoð þeirra að halda. Þau veita ekki neina fjármuni í samræmi við stóru sveitarfélögin til að þjónusta íbúa sína. Menn hafa því hrakist úr þessum byggðarlögum annað ef þeir hafa þurft á einhverri slíkri þjónustu að halda.

Það hefur kannski farið minna fyrir því í þessari umræðu í dag hvað menn vilja gera, þó svo að fyrir liggi þessi nýja tillaga á netinu hjá hæstv. ráðherra. Ég verð að segja eins og er að mér finnst koma til greina að skoða alla þá möguleika sem hafa verið nefndir og ætla ekki að útiloka neinn þeirra. Ég held að hægt sé að velta því fyrir sér hvort það eru einhverjar leiðir í skattamálum. Sérstaklega finnst mér að hægt sé að velta því fyrir sér hvort það séu ekki leiðir í sambandi við kostnað vegna flutninga út á landsbyggðina.

Ástæða er til að minna á það hér aftur og aftur að við höfum slíkt kerfi í gangi, t.d. hvað varðar sementsflutninga. Sementið kostar hið sama, líkt og olían, hvar sem menn kaupa. Hví skyldu menn ekki geta gengið lengra í því að koma til móts við fólkið sem býr á landsbyggðinni hvað varðar þá hluti, hvað varðar flutning á einhverjum öðrum vörum líka?

Ég sé í sjálfu sér ekki að menn séu betur settir þó sementsflutningar séu greiddir niður. Fólk er yfirleitt ekki að byggja alla ævi. Það er a.m.k. ekki að gerast á landsbyggðinni núna. Olíu nýta menn og orku þannig að það kemur sjálfsagt öllum til góða eða flestum að flutningsjöfnun skuli vera á því. En því skyldi ekki mega skoða það með einhverjum hætti að koma til móts við menn varðandi flutningskostnað á matvörum og öðrum vörum út á landsbyggðina? Þetta hefur verið vaxandi kostnaðarliður og ríkið hefur verið að taka meira og meira til sín í formi virðisaukaskatts af flutningi vara út á landsbyggðina.

Svo langar mig að bæta við þá umræðu sem hefur orðið hér um álver og sífellt skýtur upp kollinum í þessari umræðu um byggðamál. Ég hef reyndar ekki talað mikið um álver í tengslum við hana. Við höfum álver uppi við Hvalfjörð og við höfum líka járnblendiverksmiðju þar. Við sem búum á því svæði höfum séð hvaða áhrif þessi iðnaður hefur á byggðina og byggðarlögin í kringum eða í nágrenni við þessi tvö fyrirtæki. Ég verð að segja að ekki er hægt að neita því að þau áhrif eru afar mikil og birtast í öllu atvinnulífinu. Það er fráleitt að halda því fram að þessi starfsemi sé starfsemi fyrir fáa sem vinna í álverinu því að áhrifin eru gífurlega mikil á allt atvinnulífið. Það er mikið um þjónustu við þessi fyrirtæki sem fyrirtæki í nágrenninu veita. Fjölmargir menntaðir menn, menntafólk, vinnur fyrir þessi fyrirtæki á ýmsum sviðum. Ég get ekki tekið undir það að þessi framleiðsla sé að því leyti neikvæð á neinn hátt fyrir samsetningu atvinnulífsins.

Svo geta menn haft allar skoðanir á því hvort of mikil mengun sé frá svona fyrirtækjum og hvort við eigum að virkja fyrir austan til þess að byggja þetta stóra álver. Reynsla okkar af þessum verksmiðjum í Hvalfirði er sú að rekstur þessara tveggja fyrirtækja er kjölfesta í atvinnulífinu. Kannski ekki er ástæða til þess að fara nánar yfir það. Ég ætla samt að gera það með örfáum orðum.

Ég er einn af þeim sem voru ekki hrifnir af því þegar járnblendiverksmiðjan var byggð á sínum tíma, einfaldlega vegna þess að ég taldi að þetta fyrirtæki yrði mjög mikill mengunarvaldur og líka vegna þess að menn höfðu ímugust á fyrirtæki sem hét Union Carbide og ætlaði að byggja verksmiðjuna í upphafi. Ýmsar sögur voru sagðar af því fyrirtæki og framkomu þess víða um heiminn. Það var andstaða við þetta fyrirtæki og það er ekki nýtt undir sólinni að menn séu á móti stóriðjufyrirtækjum á Íslandi. Farnar voru mótmælagöngur og ýmsar uppákomur urðu í kringum þetta fyrirtæki. Ég tók þátt í þeim.

Eftir að þetta fyrirtæki tók til starfa kom í ljós að frá því er töluvert mikil mengun og það er ekki góður vinnustaður fyrir starfsfólkið sem vinnur í sjálfu fyrirtækinu, þ.e. vinnur nálægt sjálfri bræðslunni, alls ekki. Það hefur samt verið eftirsóttur vinnustaður og áhrifin af því eru svipuð og ég var að lýsa áðan í sambandi við álverið og járnblendiverksmiðjuna hvað varðar önnur störf.

Þetta fyrirtæki er búið að reka með miklum halla gegnumsneitt. Ríkið er búið að leggja þessu fyrirtæki til stórfé, ætli það séu ekki 4 milljarðar í mínus hjá ríkinu hvað þetta varðar í dag. (Gripið fram í.)

Mér finnst að segja þurfi alla söguna. Það að þetta fyrirtæki var byggt þarna varð til þess að álverið var byggt þar líka. Vegna þess að allt var til staðar, höfnin og raflínurnar, var álverið byggt. Ekki er vafamál að þetta réði úrslitum um að álverið kom. Það hefði aldrei komið hingað ef þessi aðstaða hefði ekki verið fyrir hendi og alls ekki í Hvalfjörð. Það er alveg klárt. Sennilega hefði það ekki komið til Íslands. Ég tel það nokkuð víst.

Hvað gerðist síðan? Þegar þetta fyrirtæki er komið í uppbyggingu koma fram hugmyndir um að grafa göng undir Hvalfjörð og þær hugmyndir komu upp einmitt hjá þeim sem unnu hjá þessum fyrirtækjum, járnblendiverksmiðjunni sérstaklega. Það er ekkert vafamál að þessi starfsemi í Hvalfirði var ein af aðalforsendunum fyrir því að menn náðu saman um að grafa göng undir Hvalfjörðinn, sem hefur gert allt atvinnusvæðið norðan Hvalfjarðar miklu sterkara en það var áður. Svona hanga þessir hlutir saman. Mér finnst full ástæða til að minna á þetta í tengslum við umræðuna um álverið fyrir austan. Menn þurfa að hafa í huga hvaða áhrif þetta hefur á þróunina inn í framtíðina.

Ég held að fyrirtæki af þessu tagi fyrir austan muni verða mikil undirstaða byggðar. Mér óar við stærð þess. En ég efast ekki um að það mun verða mikil undirstaða undir byggð og það muni verða mikil kjölfesta í atvinnulífi í framtíðinni ef það verður byggt. Það atvinnulíf sem tengist því mun vera fjölbreytt. Það er ekki rétt að halda öðru fram. Við höfum reynslu af þessu af svæðinu norðan Hvalfjarðar og mér finnst engin ástæða til að sækja hana mikið lengra.

Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að þessi umræða er dálítið einlit oft og tíðum, um það hvort það sé byggðavæn aðgerð að byggja þetta álver fyrir austan. Í mínum huga er ekki vafi á því að hún mun styrkja byggðarlögin fyrir austan og hún mun styrkja mjög stórt svæði svona í kringum þetta.

Við höfum séð hvað er að gerast núna á Vesturlandi eftir að göngin komu og eftir að þessi fyrirtæki sem ég hef verið að lýsa urðu þarna rótgróin. Ég fullyrði að áhrif höfuðborgarsvæðisins núna ná norður á norðanvert Snæfellsnes. Fólk er farið að finna til öryggis vegna góðra samgangna frá höfuðborgarsvæðinu og a.m.k. alveg á norðanvert Snæfellsnes. Þessir hlutir munu því allir lita út frá sér og það hefur auðvitað Akureyrarsvæðið líka gert og mun gera enn frekar ef það verður sterkara en það er núna. Svona atvinnulíf styrkir byggð.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því ef menn ætla sér ekki að finna byggðakjarna til þess að styrkja --- þ.e. ef menn ætla að taka þannig á þessu --- á milli, við skulum segja, Akraness og Ísafjarðar. Þá fer nú ekki vel um sunnanverða Vestfirði og svæðin báðum megin við þá. Ég held að ekki verði heldur bjart yfir Norðurlandi vestra ef menn ætla ekki að taka þar á. Ég vara því við að menn verði of uppteknir af því að styrkja einstök svæði. En sannarlega hafa sterk svæði áhrif býsna langt út frá sér ef samgöngur eru góðar.