2002-02-11 19:18:08# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki einvörðungu að tala um vaxtakjörin og lánskjörin eða einhverja mismunun í þeim efnum. Í skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að fyrirtæki á landsbyggðinni eigi ekki kost á að fá sams konar lánafyrirgreiðslu og fyrirtæki á þéttbýlissvæðinu, óháð rekstrarstöðu fyrirtækjanna. Þau líða fyrir það eitt að vera í smáum byggðarlögum, samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu Byggðastofnunar. Þess vegna hafa menn af því áhyggjur að grafið hafi verið undan bönkunum sem þjónustustofnunum við fólk og fyrirtæki á landinu öllu. Þess vegna er bent á það í skýrslu Byggðastofnunar að kröfur eru reistar um að hún sinni því hlutverki sem margir í þessum sal, ríkisstjórnin og meiri hlutinn sem hún styðst við, höfðu svo mikla fyrirlitningu á.