2002-02-11 19:20:37# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[19:20]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi byrja á að þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir það hve vel hann fór yfir þá þróun sem átt hefur sér stað við Hvalfjörðinn, á Akranesi og í Borgarfirði, og hversu gífurlega mikil og góð áhrif uppbygging, bæði járnblendisins og álversins, hefur haft á byggðaþróun á því svæði. Það kom fram með svolítið einkennilegum hætti hér í andsvörum að Vinstri grænir geta stutt uppbyggingu á álverum, bara ef það er ekki á Austurlandi. (Gripið fram í.) Það þótti mér merkilegt í umræðunni.

Hins vegar kom skýrt fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni hve gífurlega gott byggðamál það er að nýta orkulindir landsins og byggja upp stóriðju. Það er alveg augljóst og af því getum við dregið mikinn lærdóm. (Gripið fram í.)

En af því að lánastarfsemi á landsbyggðinni kom hér aðeins til umræðu þá vildi ég vekja athygli á því að það er ætlast til að lánastarfsemi Byggðastofnunar sé rekin á arðsemisgrundvelli. Svo hefur verið og hún hefur sinnt því hlutverki að lána nánast á öllu landinu. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að komið hefur í ljós að mikil þörf er fyrir þessa lánastarfsemi.