Einkaleyfi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:33:24 (4421)

2002-02-12 13:33:24# 127. lþ. 75.1 fundur 453. mál: #A einkaleyfi# (frestir, umboðsmaður o.fl.) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

Með frv. er stefnt að minni háttar breytingum á lögum um einkaleyfi vegna þróunar á alþjóðavettvangi. Breytingarnar stafa fyrst og fremst af því að á þingi Alþjóðahugverkastofnunarinnar, WIPO, í september til október 2001 voru samþykktar tillögur um breytingar á samstarfsáttmálanum um einkaleyfi frá árinu 1984 sem Ísland gerðist aðili að árið 1995 í kjölfar aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Breytingarnar er að finna í 2.--4. gr. frv. og þurfa að vera komnar í landslög aðildarríkja sáttmálans fyrir 1. apríl 2002. Breytingarnar felast aðallega í því að frestur til að yfirfæra alþjóðlega umsókn til Íslands lengist úr 20 í 30 mánuði. Töldu aðildarríkin að samræming á frestákvæðum mundi leiða til færri óska um alþjóðlega forathugun en beiðnum þar að lútandi hafði fjölgað mjög á undanförnum árum.

Í 1. og 5. gr. frv. eru ákvæði sem snerta annan alþjóðasamning, þ.e. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Verður einkaleyfishafa sem búsettur er erlendis ekki lengur skylt að hafa umboðsmann eins og er í lögum nú. Hins vegar er Einkaleyfastofunni heimilt að fara fram á að umboðsmaður verði tilnefndur en búist er við að á slíkt geti reynt ef flókin tilvik koma upp.

Í gildandi lögum er kveðið á um að umsækjanda eða einkaleyfishafa sé skylt að hafa umboðsmann sem sé búsettur hér á landi. Búsetuskilyrðin þykja stríða gegn meginmarkmiðum EES-samningsins um frjálsa þjónustu milli ríkja. Því hafa ríkin á þessu svæði, m.a. hin Norðurlöndin, breytt löggjöf sinni á þann hátt að einungis sé heimilt að krefjast þess að umsækjandi eða einkaleyfishafi hafi umboðsmann búsettan á EES-svæðinu. Þessar breytingar eru í samræmi við ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á íslenskri löggjöf vegna EES-samningsins.

Í 5. gr. er lagaskilaákvæði sem snertir meðferð nánar tiltekinna einkaleyfisumsókna. Í 6. gr. er síðan ákvæði um gildistöku laganna, 1. apríl nk. Þess er því vænst að frv. hljóti skjóta meðferð. Verði það óbreytt að lögum er ekki talið að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.