Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:41:39 (4424)

2002-02-12 13:41:39# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þm. held ég að ekki sé hægt að draga þær ályktanir sem hann gerði í máli sínu. Efh.- og viðskn. breytti ákvæðinu nokkuð þó að ég hafi ekki alveg orðalagið hérna. Hins vegar gerði sú breyting sem varð á frv. í nefndinni og var endanlega samþykkt á hv. Alþingi ekki það að verkum að hægt sé að draga þær ályktanir að sú breyting skapi þá réttaróvissu, ef réttaróvissu skal kalla, sem upp kom og hafi ráðið því hvernig dómur féll í héraðsdómi. Við vitum hvernig hann féll og getum verið mismunandi sátt við hann en engu að síður liggur sá dómur fyrir og þar sem honum er ekki áfrýjað varð það niðurstaða okkar í ráðuneytinu að flytja frv. til þess að taka af allan vafa.

Svarið við spurningu hv. þm. er: Nei.