Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:42:53 (4425)

2002-02-12 13:42:53# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að vera annarrar skoðunar en hæstv. ráðherra. Þegar ég ber saman hið upphaflega frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram á sínum tíma og frv. með breytingunum sem gerðar voru af hv. þm. stjórnarmeirihlutans í efh.- og viðskn., klárlega til að draga úr þunga ákvæðisins, dreg ég þá ályktun að einmitt breytingin sem varð í meðförum þingsins hafi valdið því að dómurinn féll með þessum hætti.

Ég er sammála hæstv. viðskrh. um að út frá þeim skjölum sem liggja fyrir af þingsins hálfu megi draga þá ályktun að ekki hafi verið ætlun löggjafans að leggja til undantekningu frá þeirri meginreglu að gáleysi nægi til refsinæmis vegna brota á þessum lögum. Mér finnst hins vegar tilefni til að vekja eftirtekt á þessu, herra forseti. Ástæðan er sú að t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hér er staddur og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. bentu á þetta í nefndaráliti sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar, að ég held hv. þm. Ögmundur Jónasson, Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir, skrifuðu undir á sínum tíma. Þar kemur fram athugasemd við þetta.

Mér þykir vert að vekja eftirtekt á þessu, herra forseti, vegna þess að í vaxandi mæli finnst mér ákveðin viðleitni af hálfu stjórnarþingmanna til þess að draga úr þeim hörðu ákvæðum sem oft koma frá hæstv. viðskrh. í þessum efnum. Ég tel að við eigum að standa fast í ístaðinu hvað þetta varðar, herra forseti.