Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:52:54 (4428)

2002-02-12 13:52:54# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir stuðninginn við málið. Ég held að ástæða sé til að lesa aðeins upp úr nál. meiri hluta efh.- og viðskn. þegar þetta mál var til umfjöllunar í desember árið 2000. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Önnur tillaga meiri hlutans lýtur að 1. tölul. 1. mgr. b-liðar 7. gr. og miðar að því að ákvæðið verði skýrara og markvissara í framkvæmd. Þar er tekið út það skilyrði að innherjaviðskipti verði að vera innherjanum sjálfum eða öðrum til hagsbóta.``

Skilyrðið að um innherjaviðskipti sé að ræða er sem sagt tekið út þótt viðskiptin séu hvorki honum né öðrum til hagsbóta. Ég tel þess vegna að það sem hv. þm. heldur fram í sambandi við meiri hluta efh.- og viðskn. á þessum tíma sé ekki alveg rétt, hugsunin hafi a.m.k. ekki verið sú hjá hv. þm. að þetta ákvæði skyldi vera þess efnis að viðskiptin þyrftu að vera viðkomandi til hagsbóta til að teljast ólögleg.