Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 13:54:23 (4429)

2002-02-12 13:54:23# 127. lþ. 75.2 fundur 363. mál: #A verðbréfaviðskipti# (innherjaviðskipti) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Örstutt um innherjaviðskipti. Fyrir nokkrum dögum var upplýst að Landssíminn hefði tapað umtalsverðum fjárhæðum í einu fyrirtæki, 200 millj. var talað um, þar sem stjórnarmenn tóku ákvörðun en höfðu enga hagsmuni af því sjálfir. Þetta er eitthvað sem fólk vill ekki. Það vill helst að stjórnarmenn séu ábyrgir og tapi með þeim ákvörðunum sem þeir taka. Það þýðir að menn vilja helst að í stjórn séu menn sem eiga hluti í fyrirtækinu. Ef um leið á að fara að gera kröfu til þess að menn sem eru í stjórn megi ekki selja sinn hlut þýðir það að í stjórn getur enginn verið sem á hlut í fyrirtækinu nema hann frysti eigur sínar um leið. Við þurfum því að vera mjög varkárir í því sem hér er verið að gera.

Síðan getur komið upp önnur staða sem er öllu verri. Segjum að ég eigi hlut í fyrirtæki, sé í stjórn og hafi hagsmuni af því að stór hluthafi selji ekki. Þá boða ég hann á fund eða í kaffi með vitnum, læt honum í té trúnaðarupplýsingar og þá má hann ekki selja.