Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:05:49 (4432)

2002-02-12 14:05:49# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sá bálkur sem hér liggur fyrir er æðimikill að vöxtum og tekur til fjölmargra þátta. Ég er ekki viss um að allur þingheimur geri sér grein fyrir því að í reynd er þetta líka bandormur vegna þess að fyrir utan þann part frv. sem lýtur að rafrænum viðskiptum og annarri rafrænni þjónustu þar sem er um frumlög að ræða, er líka lagt til að breytt verði lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, læknalögum og lögum um tannlækningar.

Herra forseti. Auðvitað munum við fara vel yfir frv. þegar það kemur til efh.- og viðskn. og væntanlega verður málinu líka vísað til þeirra nefnda sem kunna eiga að fjalla um þessar einstöku breytingar á þeim þrennu lögum sem ég nefndi hérna.

Það sem skiptir máli við frv. af þessu tagi er að neytendavernd sé gætt í hvívetna. Þess vegna má spyrja um hvort Neytendasamtökin hafi verið höfð með í ráðum þegar þetta var samið. Sömuleiðis hljóta menn að velta fyrir sér þeim öryggisskilmálum sem þarna hljóta að vera settir, einnig hvers konar eftirlit verður haft með framkvæmd rafrænna viðskipta og rafrænnar þjónustu.

Herra forseti. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra gat þess t.d. að frv. tæki til sölu á netinu. Þar af leiðir að menn hljóta að setja sterka skilmála um vernd persónulegra upplýsinga og mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig sú vernd verði tryggð.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Hvað veldur þessum sérkennilegu greinum þar sem breytingar eru lagðar til á lögum um persónuvernd, læknalögum og lögum um tannlækningar? A.m.k. að því er varðar þau lög sem lúta að læknum og tannlækningum þá skildi ég ekki alveg hvað veldur því að þessi breyting er lögð til. Sömuleiðis langar mig að koma á framfæri léttvægri athugasemd sem varðar 23. gr. þar sem lögð er til breyting á lögum um persónuvernd. Þar er verið að leggja þá skyldu á herðar þeim sem sendir markpóst með rafrænum hætti að fram komi með ótvíræðum hætti þegar hann er móttekinn að um slíkan póst sé að ræða.

Herra forseti. Mér finnst að líka eigi að vernda okkur sem erum móttakendur tuga eintaka af svokölluðum ruslpósti á hverjum degi, þ.e. varðandi það hvaðan viðkomandi hefur fengið netfangið okkar. Ég fæ á hverjum einasta degi hátt á annan tug bréfa í tölvupósti sem ekki er hægt að flokka undir annað en ruslpóst --- hann er nefndur því virðulega nafni markpóstur hér --- og mér er ekkert um það gefið. Ég veit ekki hvaðan þetta fólk hefur fengið netfang mitt og ég veit ekkert hver heimilar því að senda mér þetta. Ég veit það eitt að þetta er mér til mikils ama.

Herra forseti. Af því að svo margir íslenskumenn eru í þessum sal þá langar mig til þess að spyrja, þ.e. ef hæstv. viðskrh. gæti svarað því, en ég lifi nú án þess að fá svar við því: Hvað nákvæmlega er átt við í 4. gr. þegar talað er um óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti? Er það markpóstur? Er það þessi ruslpóstur? Er ruslpóstur sem er okkur öllum til ama á kansellímáli hæstv. viðskrh. orðinn ,,óumbeðin viðskiptaorðsending``? Má ég þá frábiðja mér að með nokkru móti verði sett í lög heimild til þess að senda mér óumbeðnar viðskiptaorðsendingar.