Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:11:28 (4434)

2002-02-12 14:11:28# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur giska gott vit á netinu og þróun þess. Það hefur margsinnis komið fram af hans hálfu í þessum sölum hversu vel hann fylgist með því.

Mig hryllir við þeirri framtíðarsýn sem hv. þm. dregur upp. Hann spáir því að við munum í miklu ríkari mæli verða, eða ég vil orða það svo, fórnarlömb óumbeðinna viðskiptaorðsendinga, þ.e. ruslpósts, þar sem einhverjir menn og einhver fyrirtæki eru að auglýsa hvers konar þjónustu utan úr heimi. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan viðkomandi hafa fengið mitt netfang. Mér er ekkert um það gefið. Ég fæ á hverjum einsta degi tvær eða þrjár orðsendingar frá erlendum fyrirtækjum þar sem mér er boðið upp á að minnka skuldir mínar. Ég fæ á hverjum einasta degi orðsendingar þar sem mér er boðið að kaupa einhvers konar bætiefni til þess að bæta heilsu mína. Ég hef engan áhuga á þessu og oft og tíðum eru þessir póstar orðnir mjög flóknir þannig að þeir eru þungir á netinu. Það tekur tíma að hlaða þeim niður, það er erfitt að losna við þá og það er verið að ræna mig dýrmætum tíma.

Sigurður Nordal sagði í einhverri góðri bók að sá sem eyðir tíma einhvers manns að nauðsynjalausu sé líka að drepa hann pínulítið. Ég vil ekki vera drepinn með þessum hætti af einhverju fólki sem ég hef engin tengsl við, hef bara ama af. Ég spyr: Hver ver mig fyrir þessu? Það er ekki gert í þessu frv.