Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:14:19 (4436)

2002-02-12 14:14:19# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Út af þeim atriðum sem komu fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni vil ég segja í fyrsta lagi í sambandi við lögverndaðar starfsgreinar eins og tannlækningar, að með þessu ákvæði er verið að gera tannlæknum mögulegt að nota netið, en í lögum er kveðið á um að þeir geti aðeins samkvæmt ákveðnum skilyrðum auglýst í dagblöðum. Þetta er í sjálfu sér ekki merkilegra en það.

Um Neytendasamtökin er það að segja að haft var samráð við þau við samningu þessa frv. Samkeppnisstofnun hefur almennt eftirlit með höndum og síðan má geta þess að eftirlit getur verið á höndum þeirra stjórnvalda sem eiga við hverju sinni, t.d. Fjármálaeftirlits. Lög um persónuvernd eiga við og dómsmrn. átti fulltrúa í nefndinni sem samdi frv. og það var sent Persónuvernd til umsagnar.

Um ruslpóst er það að segja að þetta ákvæði sem hv. þm. nefndi á við um ruslpóst. Samkvæmt lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga á að geta verið möguleiki að mótmæla ruslpósti og ef viðtakandi samþykkir ekki þá má hinn aðilinn ekki senda fleiri bréf. Ég held að það sé ljóst að þetta er ekki sérstaklega þægilegt í framkvæmd. Engu að síður er kveðið á um þetta í þessum lögum. Í tilfellum sem þessum er hægt að hafa samband við Samkeppnisstofnun sem hefur eftirlit með þessum lögum. Síðan er náttúrlega sá möguleiki fyrir hendi að láta skrá sig hjá Hagstofunni sem aðila sem ekki kærir sig um að fá ruslpóst. Það á kannski fyrst og fremst við um póstflutninga og upphringingar, en ákvæðið á einnig að ná yfir tölvupóst.