Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:17:08 (4437)

2002-02-12 14:17:08# 127. lþ. 75.4 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa það að Persónuvernd ríkisins hefur farið yfir þetta frv. og haft hefur verið samband við Neytendasamtökin. Að því er ég skildi hæstv. ráðherra hefur Samkeppnisstofnun sömuleiðis litið yfir þetta.

Mér þóttu að þessu sinni markverðust í máli hæstv. ráðherra þau atriði sem hún nefndi um ruslpóstinn. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, herra forseti, að í gildi væru lög um húsgöngu og fjarsölu sem veita mér vernd gegn þessu. Þarf ég virkilega, herra forseti, að skrá mig hjá Hagstofu Íslands til að geta öðlast vernd gegn því að verða fórnarlamb ruslpósts af þessu tagi? Af hverju Hagstofu Íslands? Ekki er það hún sem útdeilir netpósti.

Herra forseti, ég spyr hæstv. viðskrh.: Eru lög í landinu sem meina t.d. fyrirtækjum að selja slöttung af netföngum, þar á meðal mitt? Úti í hinum stóra heimi verður maður var við að þar er verið að selja netföng í milljónatali.

Ég er þeirrar skoðunar að hér á landi ætti að setja lög sem meina mönnum að selja netföng. Eitt er það að útdeila netföngum ókeypis í einhverjum tilteknum tilgangi en annað er að gera þau að verslunarvöru. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Eru lög gegn því eða mun hún ella beita sér fyrir því að setja slík lög til að vernda mig og aðra neytendur?

Að því er varðar svo þær starfsstéttir sem nefndar voru finnst mér fráleitt að við skulum enn þá setja einhver takmörk á auglýsingar af þeirra hálfu. Ég spyr sérstaklega varðandi 25. gr. --- þar er tannlæknum bannað að birta ummæli eða samtöl í auglýsingaskyni í blöðum eða tímaritum --- hvers vegna er það ekki bannað á netinu líka?