
Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):
Hæstv. forseti. Ég tel hugleiðingar og athugasemdir hv. þm. eiga mjög vel heima í nefndarstarfi. Ég treysti mér ekki til að svara öllu alveg út í hörgul enda ná ekki öll þessi mál sem hann nefnir til míns yfirráðasviðs. Lögin um persónuvernd heyra t.d. undir dómsmrh. Samkvæmt þeim lögum er ekki heimilt að selja netföng af því að hann spurði sérstaklega um það.
Að öðru leyti held ég að ég vísi til nefndarinnar þeim spurningum sem hann bar fram. Hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða, nýstárlegt á margan hátt og mikilvægt að mínu mati. Í þessu frv. er tekið á mörgum mikilvægum málum sem varða þennan nýja heim sem við lifum í, hinn rafræna heim, og þar að auki er hér um tilskipun að ræða sem þarf að hljóta innleiðingu mjög fljótlega.