Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:10:51 (4448)

2002-02-12 15:10:51# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Í umræðunni áðan kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að lægri tekjuskattur hefði áhrif á fyrirtæki eins og kræklingaeldi við Arnarfjörð, svo það dæmi sé nefnt aftur. Vissulega skiptir máli að tekjuskattur slíkra fyrirtækja sé ekki hár, það hefur náttúrlega áhrif á reksturinn, en tryggingagjaldið hefur líka áhrif á reksturinn. Eins og lögin virka í dag, að því er ég best veit, byrja menn strax að greiða tryggingagjald. Það kemur strax inn í rekstur fyrirtækisins en tekjuskatturinn virkar ekki fyrr en fyrirtækið hefur starfað í nokkurn tíma og er farið að sýna hagnað. Það er hið neikvæða í sambandi við tryggingagjaldið.

Fyrst verið var að færa svona á milli fyrirtækja, lækka tekjuskattinn og til að vinna upp á móti því að hækka tryggingagjaldið, spyr ég: Til hvers er leikurinn gerður ef hvort tveggja eru álögur á atvinnufyrirtækin? Er þá ekki augljóslega verið að færa úr einum vasanum yfir í annan? Úr hvaða vasa og yfir í hvern? Úr vasa landsbyggðarinnar yfir í vasa höfuðborgarsvæðisins? Sú spurning vaknar.

Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Steingrími J. Sigfússyni, með að til eru ótal dæmi um það erlendis, víða um heim, að styrkir og stuðningur sé veittur fyrirtækjum sem eiga undir högg að sækja, jafnvel til að bjarga heilu atvinnugreinunum.

Setjum upp þá mynd að aðeins yrðu eftir fjögur stór sjávarútvegsfyrirtæki í landinu eftir um tíu ár. Segjum að fjórir aðilar í landinu stæðu í útgerð og ekki væru til fleiri útgerðarfyrirtæki vegna þess að það hefði orðið svo mikil samþjöppun. Hvað ætti að gera ef tvö þessara fyrirtækja færu á hausinn vegna ábyrgðarleysis í fjárfestingum? Við getum t.d. hugsað okkur að þau hefðu keypt hlutabréf í einhverju fyrirtæki sem þau veðjuðu á, eins og gerðist með ýmsa sem keyptu í deCode á sínum tíma. Fólki var jafnvel ráðlagt að kaupa þar hlutabréf og tapaði á því óheyrilegum fjárhæðum. Hver á þá að koma inn í og bjarga málunum ef ekki opinberir aðilar?

Auðvitað hlýtur hið opinbera að skipta sér af atvinnulífinu í landinu, styðja við það og styrkja þar vaxtarsprota. Þess vegna nefndi ég þetta dæmi áðan og möguleikana sem við höfum í því. Þarna eru brautryðjendur á ferð. Það er ekki eins og þeir séu að keppa við marga aðra í þessu tilviki.

Þegar við erum að tala um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki í landinu þá á það að fá svo mörg útlend fyrirtæki inn í landið til að reka hér starfsemi sína. Margir hafa komið með þau rök að fyrir vikið muni fyrirtæki koma til landsins. Nú eru liðnar nokkrar vikur síðan þessi lög tóku gildi og ég spyr: Eru einhver fyrirtæki komin og hver eru þau? (Gripið fram í: Hversu mörg væru annars farin?) Já, þau væru annars farin. Það er gott að íslenskt fyrirtæki flytur til Íslands, ef það er það sem átt er við.

[15:15]

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Þegar tillagan --- ég segi ekki ef heldur þegar --- um aðgerðir í byggðamálum kemur frá ríkisstjórninni og verður lögð fyrir þingið, Alþingi Íslendinga, þá vona ég að þessi þáltill. verði tekin þar til alvarlegrar athugunar og að hún verði annaðhvort bara samþykkt óbreytt í þinginu eða að hún verði felld inn í till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005.

Bent hefur verið á að þetta muni rýra samkeppnisstöðu gagnvart innlendum fyrirtækjum en það getur líka styrkt samkeppnisstöðu gagnvart erlendum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki á Íslandi fær svokallaðan stofnstyrk --- það er líka gert ráð fyrir því að aðilar í atvinnulífinu komi þarna að --- þá skiptir þetta máli í samkeppni við önnur fyrirtæki á erlendum vettvangi, alveg eins og við erum að gera með skattalögunum eins og nefnt hefur verið hér fyrr í umræðunni. Það ber náttúrlega allt að sama brunni, þetta er hin ágætasta þáltill. sem hér hefur verið lögð fram um að stofnaðir verði sjóðir til þess að efla atvinnulífið sambærilegir þeim sem Evrópusambandsríkin og Noregur hafa.

Þetta er skilyrt. Fjárútlát úr þessum sjóðum eru líka skilyrt, herra forseti, þannig að menn eiga ekki að reikna með því að þetta beri feigðina í sér. Bæjarútgerðir hafa verið stofnaðar og þegar þær voru farnar að hagnast þá hafa þær verið seldar. Svo hafa þær farið á hausinn og þá hefur ríkið þurft að kom inn í. Við þurfum að átta okkur á því að atvinnulífið á Íslandi snertir alla í samfélaginu, allar stofnanir og alla einstaklinga. Þannig verðum við að líta á hlutina, á landið okkar sem eina heild, atvinnulífið og fólkið í landinu.