Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:34:42 (4454)

2002-02-12 15:34:42# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér er til umræðu um undirbúningsvinnu fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði er góðra gjalda verð. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir framtíðarvinnu við rammaáætlun að allir virkjunarkostir séu kortlagðir og að menn viti hvar þeir standa hvað varðar möguleika hvar sem er á landinu. Mér er kunnugt um að varðandi Hvalá hefur tiltölulega lítið verið unnið.

Á undanförnum árum hefur verið unnið við að mæla dýpi vatna á svæðinu. Um er að ræða um 500 km2 landsvæði. Síðan hefur verið unnið við það á vegum Orkubús Vestfjarða að gera úttekt á möguleikum hvað varðar línulögn. Samkvæmt því sem menn eru að tala um í sambandi við Hvalá og möguleika hennar í dag þá er það 150 megavatta stöð. Á hitt ber að líta að vinnan við Glámu er komin miklu lengra. Undirbúningsvinna hefur verið í gangi í allmörg ár og þar væri í sjálfu sér hægt að hleypa af stað meiri vinnu sem leiddi til framkvæmda á mun styttri tíma og það er minni virkjunarkostur eða um 70--80 megavött.

Þegar við ræðum þessi mál sem eru komin á framkvæmdastig er mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hver staða svæðisins er. Orkubú Vestfjarða framleiðir af sinni forgangsorku u.þ.b. 40%. Þetta eru um 13 megavött sem koma að stofni til frá Mjólkárvirkjun. Auðvitað væri mjög æskilegt að á þessu svæði væri hægt að framleiða það rafmagn sem upp á vantar og e.t.v. meira til, ef við tölum um Glámu upp á 70--80 megavött, sem gæti þá farið út af svæðinu.

Undir öllum kringumstæðum tel ég mjög til góðs að brýna ráðherra þannig að Orkustofnun gefist möguleikar á því að rannsaka þetta svæði betur þannig að það komist á kortið.

Nú verðum við að átta okkur á því í þessu samhengi að í raun er á vegum opinberra aðila kominn upp listi yfir virkjanir sem munu fara í framkvæmdir á næstu tíu árum. Lagður hefur verið fram listi m.a. sem fylgiplagg við frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kárahnjúkavirkjunar. Þar er kominn forgangslisti sem hæstv. ríkisstjórn --- það kemur nú örugglega betur fram í umræðunum um Kárahnjúkavirkjun --- hefur e.t.v. sett á blað. Þar eru náttúrlega inni virkjunarkostir sem búið er að rannsaka eða eru komnir lengra í rannsóknum. Þess vegna tel ég ákaflega mikilvægt að fara yfir sviðið og m.a. að Hvalá sé tekin inn í þessar grunnrannsóknir þannig að hún geti verið með.

Reyndar eru á þessum lista virkjunarkostir sem ég hélt að e.t.v. væru ekkert komnir lengra en á blað. Hér er talað um stækkun á Laxá, þriðja áfanga Kröfluvirkjunar, Búðarháls sem nú er í gangi, Norðlingaölduveitu, Bjarnarflag, Reykjanes, fyrsta áfanga, Fljótsdalsvirkjun, Villinganes, Skaftárveitu, Urriðafossvirkjun, Núps- og Búðarfossvirkjun, Hellisheiði, fyrsta áfanga, þar sem er nýbyrjað að bora, Grændal, fyrsta áfanga; Kröflu, fjórða áfanga; Kárahnjúkavirkjun, fyrsta áfanga og Kárahnjúkavirkjun, annan áfanga; Þeistareyki, fyrsta áfanga, þar sem er ekki einu sinni byrjað að bora. Það er talað um Reykjanes, annan áfanga; Hólmsá í Skaftártungu, Skjálfandafljót, væntanlega Aldeyjarfoss, Hellisheiði, annan áfanga; Skaftárveitu í Austur-Jökulsá, Markarfljót, Grændal, annan áfanga; Kröflu, fimmta áfanga; Þeistareyki, annan áfanga og Hellisheiði, þriðja áfanga.

Hér er búið að rannsaka og setja á blað 27 nýjar virkjanir eða stækkun á þeim virkjunum sem eru í gangi. Ég held að þessi þáltill. gefi tilefni til þess að hún sé studd með þeim orðum þó að farið verði yfir sviðið og menn rannsaki og kortleggi þá möguleika sem eru fyrir hendi í landinu þannig að hægt sé á vitrænum nótum að ræða þessi mál og taka ákvörðun um hvað eigi að nota og hvað eigi að láta kyrrt liggja. Það er meginmál. Varðandi þá virkjunarkosti sem ég taldi hér upp þá eru þar margir áfangar sem ég vildi e.t.v. sjá út og kannski Glámu inn. Ég veit það ekki. En niðurstöður rannsókna gætu leitt til þess. Þess vegna styð ég þessa þáltill.