Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:40:04 (4455)

2002-02-12 15:40:04# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu. Ég vil byrja á að segja að mér finnst mjög eðlilegt að tillögur af þessu tagi séu fluttar á meðan rammaáætlun hefur ekki komið fram. Það er gamalkunnug umræða hér að fjargviðrast yfir því að hún skuli ekki liggja fyrir. Ég tel að sú vinna sem þar hefur verið unnin á undanförnum árum hafi verið nauðsynleg. Ég býst við því að full rök séu fyrir því að þennan tíma hafi þurft í að undirbúa rammaáætlun. En það er auðvitað ekki hægt að búa við það lengur að þessi áætlun komi ekki fram.

Hæstv. iðnrh. er að leggja hér fram, eins og nefnt var áðan, frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar og þar er verið að telja upp virkjunarkosti án þess að nokkurt mat liggi fyrir á bak við það. Hvort röðin á þessum virkjunarkostum er einhver tilviljun skal ég ekkert um segja, en ég verð að draga mjög í efa að á bak við það séu einhver sérstök vísindi, þ.e. hvernig þessu er raðað í þessari upptalningu.

Mér finnst ástæða til þess að nefna þá virkjunarkosti sem eru í þessari þáltill. í þessu samhengi einfaldlega vegna þess að við vitum að nú vantar orku til stækkunar álversins í Hvalfirði. Það sem helst hefur verið haft uppi hvað það varðar er að það eigi að grípa til þess að reisa svokallaða Norðlingaölduveitu. Hún er í þriðja sæti í þessari upptalningu sem ég nefndi áðan. Það er mín skoðun að Norðlingaölduveita verði einhver umdeildasta virkjun sem farið verður í á næstunni a.m.k., ef af verður. Mér finnst alveg með eindæmum að hæstv. iðnrh., úr því að hún kom með upptalningu af þessu tagi, skuli ekki láta það vera þannig að einhverjar tillögur lægju fyrir um það hvernig ætti að taka á þessu máli.

Mér finnst undirbúningur stækkunar álversins í Hvalfirði hafa verið látinn fara afar hljóðlega og að menn séu núna og hafi með yfirveguðum hætti látið að því liggja að þeir stæðu þar frammi fyrir einum kosti þegar til loka drægi, þ.e. Norðlingaölduveitu. En eins og ég sagði áðan þá tel ég að það verði einhver umdeildasta virkjun sem í verður farið á Íslandi.

Það hefði verið, og er í raun enn, tími til stefnu til þess að undirbúa það að geta skaffað Norðuráli rafmagn öðruvísi en með Norðlingaölduveitu, m.a. væri hægt að virkja á Vestfjörðum. Forráðamenn Norðuráls hafa meira að segja sjálfir bent á þennan möguleika. Þess vegna er full ástæða til þess að draga athygli að þessu máli í samhengi við þessa umræðu.

Mér finnst afar dapurlegt að þurfa að segja að ég tel að það stefni í mikil átök um þessa virkjun sem ég nefndi áðan, eða öllu heldur veitu, Norðlingaölduveitu, því að með henni er verið að brjóta gegn samningum, alþjóðasamningum um verndun svæðisins þarna í kring. Mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt hversu lítil umræða hefur orðið um þetta mál.

Það er búið að fara prýðilega yfir frv. sem hér er til umræðu. Ég ætla ekkert að teygja lopann yfir því. Ég tel að þetta sé afar áhugaverð virkjun. Og hún er býsna stór. Sameiginlega eru þessar tvær virkjanir, Glámuvirkjun og virkjun Hvalár, mjög álitlegur virkjunarkostur, jafnvel til þess að mæta þörfum stóriðju ef á þarf að halda.

Þess vegna hefði verið full ástæða til þess að stjórnvöld brygðust við svolítið fyrr. En sú tillaga sem hér liggur fyrir er þá komin fram. Menn ættu því að grípa gæsina og fara í þær rannsóknir sem á þarf að halda sem allra fyrst því vel kann að vera að menn hrekist frá þeim hugmyndum sem nú eru uppi um að fara í þessa Norðlingaölduveitu til þess að uppfylla þarfir Norðuráls.