Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:46:24 (4456)

2002-02-12 15:46:24# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla í upphafi máls að lýsa yfir stuðningi við þá till. til þál. sem hér um ræðir, um rannsóknir á virkjunarmöguleikum í Hvalá í Ófeigsfirði. Ég tel að mjög þarft sé að stuðla að því að þeir verði rannsakaðir fyrr en seinna og þeir möguleikar skoðaðir sem þar bjóðast.

Ég vil líka láta það koma fram að á síðastliðnu vori fór ég upp í Norðurál í Hvalfirði til að ræða þar við forustumenn fyrirtækisins, m.a. um hvort þeir sæju eitthvað því til fyrirstöðu að skoða það, við stækkun síðasta áfanga Norðuráls, að inn í það dæmi gæti komið virkjun á Vestfjörðum. Ástæða þess að ég ræddi þetta á þessum nótum er sú að á Vestfjörðum er verið að kaupa verulegt magn orku inn á svæðið. En orkan getur farið í báðar áttir, er það ekki? Bæði norður og suður.

Á Vestfjörðum er Orkubú Vestfjarða. Í ársskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2000 kemur fram að Orkubú Vestfjarða sinnir orkuöflun og sölu upp á 220--230 gígavattstundir. Eigin orkuvinnsla fyrirtækisins af því er aðeins 38,6%. Það þýðir að 61,4% af orkunni er keypt af Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins eða öðrum aðilum, t.d. Funa, sem bæta upp þá orkuþörf sem ekki er til taks við framleiðslu eigin virkjana Orkubús Vestfjarða.

Kostirnir í þessari stöðu að því er varðar Norðurál og þörf þeirra fyrir orku á árinu 2006, ef áætlanir ganga eftir, eru að með öflugri virkjun eins og Hvalárvirkjun væri hægt að fullnægja þeirri orkuþörf. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að orkubúið kaupir um 141 gígavattstund af öðrum inn á svæðið en virkjun Hvalár mundi fullnægja því. Þar með væri sú orka sem keypt er frá Landsvirkjun annars vegar og frá Rarik hins vegar á lausu, eða hvað? Þá orku væri þá m.a. hægt að nýta til þess að sjá Norðuráli fyrir aukinni orkuþörf og koma inn í það dæmi.

Ég held að hér sé hreyft ákaflega þörfu máli og gera þurfi gangskör að því að þær forathuganir sem hér eru nefndar í greinargerð eigi sér stað. Það hefur verið kortlagt þannig að menn gætu búið til vatnsmiðlun í svokölluðum Vatnalautavötnum uppi á Ófeigsfjarðarhálendinu, í 340--350 m hæð. Mælingarnar hafa farið fram á rennsli Hvalár, á því vatnsmagni sem stendur þar til boða að jafnaði.

Ekki er vanþörf á að efla nýsköpun og framkvæmdir á Vestfjörðum eins og mál hafa þróast þar á undanförnum árum. Það gæti vissulega verið þáttur í að snúa við þeirri atvinnuþróun sem þar hefur verið á undanförnum árum að efla þar framkvæmdir. Ég sé það líka fyrir mér, ef farið væri í þessa virkjun í Ófeigsfirði, að þá mundi samhliða koma hringvegur af Ströndum yfir í Djúp. Þar með yrði til ný ferðamannaleið um Vestfirði sem ég tel mjög áhugavert. Það yrði ekki síst til hjálpar því svæði sem stendur nú mjög höllum fæti, Árneshreppi á Ströndum, en við þingmenn Vestfjarða höfum einmitt lagt fram ályktun um hvernig mætti standa að því að efla þar búsetu og afkomumöguleika íbúanna.

Allt mundi þetta geta farið saman í þeirri hugsun sem birtist í þessari tillögu, um að hægt væri að virkja Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. Þess vegna eru ýmsir kostir sem fylgja því að stefna að þessu máli sem allra fyrst og fá fram hina raunverulegu möguleika við virkjun þessa vatnasvæðis. Svo hagar til að Drangajökull er þarna norður af og getur verið vatnsmiðlun fyrir svæðið yfir sumartímann og margt sem mælir með því að þessi virkjun geti verið mjög hagkvæm og að vatnsrennsli á þessi svæði sé stöðugt og jafnt.

Ég vil svo taka undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi áðan um deilurnar sem mundu koma upp varðandi Norðlingaölduveitu yrðu mögulega lagðar til hliðar ef þessi kostur yrði skoðaður í alvöru. Eins og nú hagar til, þegar fyrir liggur að menn ætla að virkja við Kárahnjúka og efla með uppbyggingu álvers atvinnulíf á Austurlandi og með hliðsjón af nýkunngerðri byggðaáætlun, sem reyndar var kynnt úti í bæ af hæstv. iðn.- og viðskrh., þar sem gert er ráð fyrir að efla Miðnorðurland, er vissulega þörf á að huga að Vestfjörðum varðandi atvinnumál og uppbyggingu. Ég held að hér sé tækifæri til þess með því nýta virkjunarmöguleika sem virðast við fyrstu skoðun vera hagkvæmir. Með því yrði farið í uppbyggingu svæðis sem á undir högg að sækja eins og nú standa sakir þótt ég hafi fulla trú á að Vestfirðir muni síðar ná vopnum sínum, hvort sem ríkisstjórnin hyggst setja um það hugmyndir inn í texta byggðaáætlunar eða ekki. Ég trúi því að Vestfirðir muni ná vopnum sínum í atvinnuuppbyggingu þegar fram í sækir.