Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 16:14:20 (4459)

2002-02-12 16:14:20# 127. lþ. 75.7 fundur 112. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi við það frv. sem hér er komið fram, um að heimila fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. í fiskvinnslunni almennt og að sú takmörkun sem þar er í gildi núna verði afnumin.

Frv. eins og það er uppbyggt gerir ráð fyrir að ef til kemur að slík heimild verður veitt, að erlendir aðilar komi til samstarfs við innlenda aðila um fiskvinnslu, skuli fyrirtækjarekstrinum, ef fyrirtækið er jafnframt í útgerð, skipt upp, þ.e. verði þá tvö sjálfstæð fyrirtæki. Annars vegar sé fyrirtæki með útgerðarreksturinn og þar væru áfram takmarkanir eins og verið hefur, erlendir aðilar kæmust ekki inn í fjárfestingu í útgerð, en ef fyrirtækið væri með þannig rekstrarform að það væri bæði með útgerð og vinnslu, þá hefðu erlendu aðilarnir opna heimild til þess að fjárfesta í vinnsluþætti hráefnisins.

Ég tel að þetta væri eðlileg breyting á lögunum eins og komið er í dag. Eins og hv. þm., 1. flm. Svanfríður Jónasdóttir gat um eru erlendir aðilar hér í fiskvinnslu og ekki endilega í þeirri fiskvinnslu sem þeim er heimilt í dag, þ.e. reykingu, súrsun, niðursuðu og niðurlagningu eða umpökkun afurða í neytendaumbúðir. Þeir eru með óbeina fjármögnun í fiskvinnslu og svo hefur verið um nokkurn tíma.

Ég held að rétt sé að stíga þetta skref. Það er í samræmi við tillögu sem stjórnarandstaðan lagði hér sameiginlega fram. Ég var 1. flm. því að í upphafi þessa þings, þ.e. 4. mál þessa þings, um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Sú tillaga er að vísu víðtækari. Hún gerði ráð fyrir að samið yrði frv. sem stefna mundi að því almennt --- hún er mun víðtækari heldur en hér er lagt til --- að aðskilja veiðar og vinnslu í rekstrarlegu formi. Þar verði sem sagt um tvö algerlega aðskilin fyrirtæki að ræða. Flutningsmenn þeirrar þáltill. með mér voru einmitt hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og hv. þm. Jóhann Ársælsson. Hugsunin í því gengur að vísu í sömu átt að þessu leyti, að því er varðar fjárfestinguna. Að öðru leyti gengur sú tillaga líka út á að hér skapist eðlileg skilyrði í verslun með fisk á fiskmörkuðum og ýmislegt annað sem lýtur að verslun með fiskafurðir og hvernig menn nota sér m.a. aflaheimildir í því sambandi. Hún er eðlilega einnig gerð með tilliti til samkeppnislaga, EES-samninga og annarra krafna.

Frv. sem við ræðum hér gengur hins vegar út á að heimila fjárfestingu í fiskvinnslunni eins og áður sagði. Útgerðarþátturinn yrði þá skilinn frá ef svo hagar til í fyrirtækjum. Ég tel að þetta yrði eðlileg breyting og framfaraspor á þeirri leið sem ég hefði auðvitað viljað fara líkt og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn, að hér yrði stefnt að því, eins og víða er hjá öðrum þjóðum, að fiskvinnslan væri sér um rekstur og útgerðarþáttinn einnig sér.

Ég tel að það yrði til mikilla bóta og að samþykkja þetta frv. væri að mínu viti vissulega til bóta eins og málum er háttað. Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál.