Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 16:19:02 (4460)

2002-02-12 16:19:02# 127. lþ. 75.7 fundur 112. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er búið að fara mjög vel yfir þetta mál og kannski er ekki mörgu við það að bæta. Mig langar þó að segja fáein orð.

Ég verð að segja eins og er að það eru mér sífelld vonbrigði að stjórnarflokkarnir skuli ekki hafa endurskoðað stefnu sína í þessum málum sem verið er að flytja inn á þingið. Það er mikið umhugsunarefni að frjálsræði í viðskiptum skuli ekki vera á stefnuskrá þeirra og að bókstaflega engar breytingar hafi orðið á þeim hlutum sem við erum að tala um. Við erum að tala um fjárfestingu erlendra aðila í fiskvinnslu. Við erum að tala um að skipta upp fyrirtækjum milli veiða og vinnslu. Slík skipting yrði mikið framfaramál --- við erum að tala um hluti eins og þá að allur fiskur fari á markað. Allt þetta er eins og eitur í beinum þeirra sem stjórna málum á stjórnarheimilinu. Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera?

Skýringarinnar er auðvitað að leita á einum stað. Hún er fólgin í því að hjá flokkunum, hæstv. forseti, sem fara með völdin í þessu landi eru inni á gafli menn sem hafa eigin hagsmuna að gæta hvað þessa hluti varðar og koma sífellt í veg fyrir að umræða um það að koma á eðlilegu viðskiptaumhverfi, af því tagi sem við erum að tala hér um, verði nokkurn tíma að veruleika. Auðvitað vantar pólitísk bein í þá sem stjórna málum á stjórnarheimilinu. Ég veit að forseti líður önn fyrir það hvernig komið er og að engar breytingar skuli vera væntanlegar hvað þessa hluti varðar. Hæstv. forseti hefur marglátið það koma fram í ræðum sínum að hann er talsmaður frjálsra viðskipta.

Ég vona sannarlega að menn skoði þessa hógværu tillögu. Það er eingöngu verið að fara fram á að þau fyrirtæki sem hugsi sér að fá erlent fjármagn til sín þurfi að hlíta því að verða skipt upp ef um er að ræða fyrirtæki með blandaðan rekstur, veiði og vinnslu, en önnur geti haldið áfram þrátt fyrir það sem í frv. stendur. Ég ítreka þá skoðun mína og minni á að við höfum staðið að flutningi mála sem ganga út á að skilja þarna skýrt á milli.

Menn geta auðvitað velt því fyrir sér og haft á því mismunandi skoðanir hversu æskilegt er að fá erlent fjármagn inn í atvinnurekstur á Íslandi. Ég sé engan mun á því að fá erlent fjármagn inn í fiskvinnslu eða einhvern annan atvinnurekstur. Það er undarlegt að hlusta á ræður manna um að lækka skatta til að fá hingað fyrirtæki þar sem menn fá glampa í augun yfir því að fá hingað erlent fjármagn en svo koma sömu menn í veg fyrir að hægt sé að nýta sér áhuga erlendra fjárfesta á að koma inn í fiskvinnslu á Íslandi. Þeir horfa svo aftur á móti fram hjá því sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lýsti áðan, að hér hafa verið rekin fyrirtæki árum saman, jafnvel áratugum saman, sem hafa ævinlega flutt allan þann fisk sem þau hafa verkað til sama aðilans erlendis og hann hefur fjármagnað að stórum hluta og kannski alveg þann rekstur. Þetta er ekkert leyndarmál. Þetta vita menn. Svona er þetta. Fyrirtæki af þessu tagi hafa skaffað allar vélar inn í þetta, keypt allan fisk sem fluttur er frá þessum fyrirtækjum og eru í daglegu sambandi við þá sem stjórna fyrirtækjunum upp á hvort kaupa eigi fisk á mörkuðum á því verði sem uppi er þann daginn.

Auðvitað eiga menn að stíga skrefið alla leið og gefa þeim erlendu aðilum sem vilja reka hér fyrirtæki með þessum hætti sömu möguleika í þessari atvinnugrein, rétt eins og menn sækjast eftir að fá erlenda aðila inn í öðrum atvinnugreinum.

Ég endurtek bara að ég vona að menn komist til ráðs með að koma yfir þetta eðlilegum reglum en tek undir það að við eigum auðvitað enn langt í land með að koma lagi á útgerðina hjá okkur. Erlend fjárfesting í útgerð á Íslandi er að mínu viti óhugsandi við þessar aðstæður. Menn verða að horfast í augu við að eignarhaldið á veiðiheimildunum kemur í veg fyrir að hægt sé að hleypa erlendum aðilum inn í útgerð á Íslandi. Það verður ekki hægt að tala um þá hluti í alvöru fyrr en búið verður að aflétta núverandi ástandi.